Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   mán 05. september 2022 15:22
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Sævar segir ákvörðun KA mjög erfiða, en samt ekki
Nökkvi hefur átt draumatímabil.
Nökkvi hefur átt draumatímabil.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sævar Pétursson
Sævar Pétursson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Klúbbarnir eru búnir að komast að samkomulagi, hann er núna á leiðinni út og fer í læknisskoðun í kvöld," sagði Sævar Pétursson, framkvæmdastjóri KA, við Fótbolta.net í dag.

KA er að selja Nökkva Þey Þórisson til belgíska félagsins Beerschot en félagið kom með formlegt tilboð í leikmanninn í gær.

„Það á formlega eftir að ganga frá öllu en klúbbarnir hafa náð saman í öllum stórum málum. Hann er á leiðinni til Belgíu og fer í læknisskoðun seint í kvöld. Ef allt gengur eftir þá skrifar hann undir í kvöld eða fyrramálið og allir pappírar frágengnir fyrir miðnætti á morgun því þá lokar glugginn í Belgíu."

Sævar segir ákvörðun KA að samþykkja tilboð í Nökkva á þessum tímapunkti erfiða, en samt ekki.

„Mjög erfið en samt í raun ekki. Við höfum sagt við alla þessa stráka sem hafa komið til okkar; Nökkvi, Sveinn, Þorri, Bjarni og Danni (leikmenn í kringum tvítugt) að við séum með það sem markmið að reyna hjálpa þessum strákum að komast út. Þegar það kemur tilboð sem er gott fyrir klúbbinn og mjög gott fyrir leikmanninn þá verðum við að þora að standa við það og standa við þau orð sem við höfum gefið leikmanninum þegar hann kom upphaflega. Þó að þetta sé vond tímasetning fyrir okkur þá er þetta þannig tækifæri fyrir Nökkva að við viljum ekki standa í vegi fyrir honum. Það hefði verið óskandi að hafa hann út tímabilið en þegar svona samningur er kominn á borðið þá skilur maður leikmanninn."

Var þetta fyrsta formlega tilboðið í Nökkva í glugganum?

„Nei, það var búinn að vera meiri áhugi og við vorum búnir að fara í einar viðræður sem að við höfnuðum svo á endanum. Það hefur verið draumur hjá Nökkva að fara til Hollands eða Belgíu - hann var hvað spenntastur fyrir því. Svo vaknar einhver von á laugardaginn, þá kom fyrsta fyrirspurnin og svo gerðust hlutirnir mjög hratt í gærkvöldi og í morgun - eftir leikinn á móti Fram."

KA er í 2. sæti Bestu deildarinnar eftir tuttugu leiki. Víkingur er í 3. sæti, stigi á eftir og á leik til góða. Á Íslandi er keppt um þrjú Evrópusæti, efstu tvö lið deildarinnar eru örugg með slík sæti en svo er eitt Evrópusæti í bikarnum. FH er komið í úrslit Mjólkurbikarsins og ef liðið vinnur Víking í úrslitaleiknum fer liðið í Evrópukeppni. Ef Víkingur vinnur, og endar í öðru af tveimur efstu sætum Bestu deildarinnar, þá fer liðið í 3. sæti deildarinnar einnig í Evrópukeppni.

Sævar segir að aðrir leikmenn í hópnum verði að stíga inn í það skarð sem Nökkvi skilur eftir sig.

„Aðrir leikmenn stíga upp, við erum með fullt af spennandi strákum í hópnum sem ég hef fulla trú á. Þó að þeir skori kannski ekki alveg sautján mörk, þá held ég hópurinn sér alveg nógu sterkur til að tækla þetta og halda áfram í þeirri baráttu sem við erum í að keppa um Evrópusæti."

Eins og Sævar sagði þá hefði verið óskandi fyrir KA að halda Nökkva út tímabilið.

„Auðvitað var það fyrsta spurningin sem við fórum í gagnvart klúbbnum. En þeir losuðu sóknarmann og voru að leita sér að 'striker' númer eitt fyrir lok gluggans. Okkur fannst við ekki geta staðið í vegi fyrir Nökkva þegar klúbburinn var svona áfjáður í að koma honum inn. Þetta er frábært tækifæri fyrir hann," sagði Sævar.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner