Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 15. október 2019 11:30
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Gleðst yfir því að hafa haft rangt fyrir mér
Elvar Geir Magnússon
Markahrókurinn Kolbeinn Sigþórsson.
Markahrókurinn Kolbeinn Sigþórsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsliðsferill Kolbeins hefur verið magnaður.
Landsliðsferill Kolbeins hefur verið magnaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hörður Snævar Jónsson
Það var gaman að vera viðstaddur þá stund á Laugardalsvellinum í gær þegar Kolbeinn Sigþórsson jafnaði markamet Eiðs Smára Guðjohnsen með því að skora seinna mark Íslands í sigrinum gegn Andorra. Ég viðurkenni að ekki eru margir mánuðir síðan ég taldi nær útilokað að þessi stund myndi koma.

Ég var líka í Kórnum 21. mars 2010 þegar Kolbeinn skoraði sitt fyrsta landsliðsmark. Það kom í hádeginu á sunnudegi í vináttulandsleik gegn Færeyjum.

„Mér fannst Kolbeinn mjög skemmtilegur, ég hef reyndar séð hann spila fótbolta áður en hann er mjög sprækur og verður örugglega framtíðarleikmaður Íslands, ég er klár á því." sagði Ólafur Jóhannesson, þáverandi landsliðsþjálfari, eftir leikinn.

Þrátt fyrir að hafa verið ótrúlega óheppinn með meiðsli hefur Kolbeinn skilað 26 mörkum í 54 landsleikjum fyrir Ísland og verið lykilmaður í gegnum mesta blómaskeið í íslenskum fótbolta. Nafn hans er löngu komið í bestu kafla íslenskrar íþróttasögu þó ferill hans með félagsliðum hafi oft verið langt frá því að teljast dans á rósum.

Hann skoraði gegn Englendingum og Frökkum í útsláttarkeppni EM 2016 og lék eitt aðalhlutverkið í einu frægasta íþróttaævintýri seinni ára. En frá því að EM lauk þá liðu 26 mánuðir þar til Kolbeinn lék aftur landsleik. Meiðsli og aðrar hrakfarir, með frekar óljósri atburðarás, gerðu það að verkum að margir útilokuðu hann.

En sem betur fer fyrir Kolbeinn þá útilokaði Erik Hamren hann ekki. Talað var um tilraunaverkefnið með Kolbein þegar sá sænski valdi Kolbeinn í landsliðshópa án þess að leikmaðurinn væri að spila fótbolta og líkamlegt ástand hans var í óvissu. Margir efuðust algjörlega um þetta tilraunaverkefni og ég viðurkenni að ég var í þeim hópi.

Kolbeinn var einlægur í viðtölum og sagðist skilja afstöðu þeirra sem gagnrýndu valið á honum.

Ég gleðst svo sannarlega yfir því að hafa haft rangt fyrir mér. Tilraunaverkefni Hamren hefur gengið upp og það hefur verið magnað að fylgjast með stígandanum hjá Kolbeini þar sem hann hefur með hverjum leiknum verið að nálgast sitt besta form.

Nú bindur maður vonir við það að síðasti kaflinn um frammistöðu Kolbeins fyrir íslenska landsliðið sé óskrifaður og hann hjálpi landi og þjóð að komast á sitt þriðja stórmót í röð.
Athugasemdir
banner
banner
banner