Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 16. maí 2021 21:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fyrsta félagið sem vinnur Meistaradeild karla og kvenna
Mynd: EPA

Barcelona vann mjög sannfærandi sigur á Chelsea í kvöld. Barcelona mættu mjög áræðnar til leiks en það er ekki hægt að segja það sama um Chelsea; Englandsmeistararnir mættu einfaldlega ekki til leiks.

Barcelona komst yfir strax á fyrstu mínútur með ótrúlega klaufalegu sjálfsmarki Chelsea. Fran Kirby ætlaði að hreinsa en setti boltann í Melanie Leupolz og þaðan fór boltinn í markið. Hrikalega klaufalegt en það var bara byrjunin.

Á tólftu mínútu fékk Barcelona vítaspyrnu, frekar 'soft' vítaspyrnu en dómarinn dæmdi og Alexia Putellas skoraði.

Svo skoraði Aitiana Bonmati þriðja markið á 20. mínútu. „Chelsea hefur engin svör," sagði Margrét Lára Viðarsdóttir í útsendingu Stöð 2 Sport 2. Það var svo sannarlega rétt því fjórða markið kom á 36. mínútu. Það gerði hin norska Caroline Graham Hansen. Sú norska fór ansi illa með Jessica Carter, sem lék í bakverði hjá Chelsea. Carter mun líklega ekki sofa mikið í nótt.

Staðan var 4-0 í hálfleik og leikurinn í raun búinn. Barcelona varðist bara vel í seinni hálfleiknum og landaði sigrinum.

Barcelona er fyrsta fótboltafélagið sem vinnur bæði Meistaradeild karla og Meistaradeild kvenna, og þvílíkt tímabil sem þetta lið hefur átt.

Barcelona hefur unnið alla leiki sína í deildinni heima fyrir, 26 talsins. Liðið er búið að vinna deildina heima. Heilt yfir hefur liðið spilað 37 leiki og aðeins tapað einum þeirra, en það var gegn Manchester City í Meistardeildinni. Barcelona hefur í þessum 37 leikjum skorað 161 mark og fengið á sig 13. Magnaður árangur hjá mögnuðu liði.



Athugasemdir
banner
banner