Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 16. maí 2022 23:45
Brynjar Ingi Erluson
Carragher og Neville fóru yfir leikinn - „Verður erfitt fyrir Arteta á næsta tímabili"
Jamie Carragher
Jamie Carragher
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Antonio Conte mun líklega taka lið sitt í Meistaradeildina
Antonio Conte mun líklega taka lið sitt í Meistaradeildina
Mynd: Getty Images
Arsenal á sáralítinn möguleika á að komast í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili en Jamie Carragher og Gary Neville segja að næsta tímabil gæti orðið erfitt fyrir Mikel Arteta, stjóra liðsins.

Lundúnarliðið klúðraði málunum í næst síðustu umferð deildarinnar og nú er Tottenham með allt í höndum sér. Liðið þarf aðeins stig í lokaumferðinni til að komast í Meistaradeildina og flækir þetta málin fyrir Arsenal.

Arsenal spilaði ekki í Evrópukeppni á þessu tímabili og fékk því ágætis forskot á hin liðin. Þrátt fyrir það er liðinu að mistakast að komast í deild þeirra bestu en Carragher segir að þetta gæti kostað sitt á næstu leiktíð.

„Mér fannst þeir ömurlegir. Ég hef verið mikill stuðningsmaður Mikel Arteta og þessu Arsenal-liði því frá því ég byrjaði á Sky þá var ég orðinn þreyttur á að segja það sama um Arsenal. Ég var orðinn leiður á sjálfum mér. Ég naut þess að sjá þessa ungu leikmenn."

„Stuðningsmennirnir voru líka hrifnir af þeirri hugmynd. Þeir sættu sig við það að liðið myndi ekki berjast um titla en það var verið að byggja eitthvað. Þessi frammistaða í dag var samt slæm og þetta var algjör bikarúrslitaleikur því við vitum hvað Meistaradeildin er mikilvæg."

„Það að spila svona illa í fyrri hálfleiknum og gera það nákvæmlega sama í síðari hálfleik, það er bara ekki ásættanlegt. Það voru ekki endilega úrslitin, það var bara hvernig þeir fengu þessi úrslit. Þeir voru ömurlegir frá fyrstu mínútu."

„Vandamálið er líka ekki bara þetta tímabil heldur verður þetta gríðarlegt vandamál fyrir Mikel Arteta og lið hans að horfa fram veginn eftir þetta."

„Evrópudeildin á næsta tímabili. Spilað á fimmtudögum og svo sunnudögum. Þeir fengu gott tækifæri á þessu tímabili og ansi stórt tækifæri að spila ekki í Evrópu. Það var forskot. Þetta var ekki eitt af fjórum bestu liðum deildarinnar en þeir voru með forskot á önnur lið og hafa samt ekki náð að nýta sér það. Ég óttast um Arsenal og Arteta á næsta tímabili."

„Þetta verður erfitt fyrir hann. Ég held að þetta verði leikurinn sem allir horfa til baka þegar hann yfirgefur félagið á endanum. Þetta er fyrsta starf hans og hann hefur ekki alveg alveg þessa trú."

„Ef það gengur illa hjá Antonio Conte þá veistu að hann hefur unnið deildina með Chelsea og Inter. Maður hefur tilfinninguna að hann hefur gert þetta áður og að hann viti nákvæmlega hvað hann er að gera en Arteta hefur aldrei gert þetta áður. Það er ekki gagnrýni, heldur bara staðreynd. Hann þurfti það í kvöld og ég óttast um hann fyrir næsta tímabil og ef Arsenal er í sjöunda eða áttunda sæti um jólin og liðið er enn í Evrópudeildinni þá verður hann undir þvílíkri pressu,"
sagði Carragher.

Gary Neville tók undir með Carragher en hann hafði reyndar aldrei trú á þeim.

„Ég leyfði þeim að njóta vafans í hálfleik. Þetta er ungt lið sem hefur ekki reynsluna eða karakterinn. Ég treysti þeim aldrei fullkomlega að komast í topp fjóra, svona ef ég á að vera hreinskilinn. Ég hélt samt að þeir myndu koma út í seinni hálfleikinn og sýna einhver viðbrögð. Það segir okkur svolítið hvar þeir eru," sagði Neville.
Athugasemdir
banner
banner
banner