Ákveðinn í að fá Haaland til Barcelona - City veitir Liverpool keppni um Guehi - Everton mun ekki hlusta á tilboð í Branthwaite
   þri 16. september 2025 16:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Höfnuðu tilboði Víkings í Björgvin Brima - „Erum alveg opin fyrir samtali síðar í haust"
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Björgvin Brimi Andrésson hjá Gróttu er leikmaður sem Víkingur vill fá í sínar raðir og hefur félagið lagt fram tilboð í leikmanninn. Magnús Örn Helgason, yfirmaður fótboltamála hjá Gróttu, staðfestir tíðindin við Fótbolta.net en það var Kristján Óli Sigurðsson sem vakti athygli á tilboðinu með færslu á X í dag.

Björgvin Brimi er 17 ára sóknarmaður sem hjálpaði Gróttu að komast upp úr 2. deild í sumar með því að skora átta mörk í 20 leikjum. Hann spilaði langoftast á vinstri kantinum á tímabilinu. Annað tímabilið í röð vekur ungur sóknarmaður í 2. deild athygli liða í Bestu deildinni, en í fyrra var það Jakob Gunnar Sigurðsson með Völsungi.

„Víkingur gerði tilboð, en við teljum þetta ekki réttan tímapunkt til að ræða félagaskipti innanlands þar sem hann er að fara í allavega eina, og líklega tvær, heimsóknir erlendis eftir tímabilið. Við sjáum hvað kemur út úr því. Svo er annað hvort einn leikur eða tveir eftir af tímabilinu, erum í undanúrslitum Fótbolti.net bikarsins og okkur langar að vinna þá keppni."

„Við höfum hingað til átt í mjög góðu samstarfi við Víking um leikmenn bæði karla og kvenna. Þó svo að við stökkvum ekki á þetta tilboð núna þá erum við alveg opin fyrir samtali síðar í haust. Það eru líka alveg kostir og gallar fyrir Björgvin Brima að færa sig á þessum tímapunkti. Hann er bara 17 ára, fékk fullt af leikreynslu í sumar, stóð sig vel og var vaxandi eftir því sem leið á tímabilið. Það að spila 20+ leiki í Lengjudeildinni á næsta ári yrði mjög gott veganesti fyrir hann, en á sama tíma gerum við ekki lítið úr styrk Víkinga og erlendu félaganna sem hann mun heimsækja."


Björgvin Brimi mun fara til Stockport eftir tímabilið og Magnús segir að danskt Íslendingafélag fylgist einnig náið með honum og hann telji líklegt að Björgvin fari líka þangað á reynslu.

„Hann stóð sig ofboðslega vel í sumar, frammistaðan varð betri og betri eftir því sem leið á sumarið. Hann var alltaf hættulegur en mér líður eins og bakverðir andstæðinganna hafi undir það síðasta verið komnir með martraðir að þurfa mæta honum. Hann var með það mikið sjálfstraust, var að skora og leggja upp. Hann endar með átta mörk og slatta af stoðsendingum. Það er sérstaklega gaman að hann hafi vaxið svona þegar leið á tímabilið og var einn af okkar bestu mönnum seinni hlutann. Hann bætti sig líka mikið í varnarleiknum," segir Magnús.

Grótta á heimaleik gegn Víkingi Ólafsvík á laugardag í undanúrslitum Fótbolti.net bikarsins.

Björgvin Brimi var í Gróttu fram í 4. flokk, skipti til KR fyrir tímabilið 2021 og sneri aftur í Gróttu fyrir tímabilið í ár. Á síðasta tímabili kom hann við sögu í tveimur leikjum með KR í Bestu deildinni og einum leik í Lengjubikarnum í vetur. Hann á að baki tólf unglingalandsleiki, þar af níu fyrir U17.

Athugasemdir
banner