Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   lau 16. október 2021 16:55
Brynjar Ingi Erluson
Víkingur R. er Mjólkurbikarmeistari 2021
Víkingar fagna með Kára Árnasyni sem gerði annað mark leiksins og fyrsta mark hans í sumar
Víkingar fagna með Kára Árnasyni sem gerði annað mark leiksins og fyrsta mark hans í sumar
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Hörkuskallaeinvígi hjá Nikolaj Hansen og Sindra Snæ Magnússyni
Hörkuskallaeinvígi hjá Nikolaj Hansen og Sindra Snæ Magnússyni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason fagnar marki sínu
Kári Árnason fagnar marki sínu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍA 0 - 3 Víkingur R.
0-1 Erlingur Agnarsson ('18 )
0-2 Kári Árnason ('45 )
0-3 Helgi Guðjónsson ('90 )
Lestu um leikinn

Víkingur Reykjavík varði bikarmeistaratitilinn í dag er liðið vann ÍA 3-0 í úrslitaleik Mjólkurbikarsins á Laugardalsvelli. Víkingur kemst því í hóp fárra liða að vinna tvöfalt og um leið kveður þá Sölva Geir Ottesen og Kára Árnason, sem hafa lagt skóna á hilluna eftir magnaða ferla.

Það var mikil spenna í byrjun leiks og frábær stemning. Það voru Skagamenn sem áttu fyrsta færið. Það kom langur bolti fram hægri vænginn á Viktor Jónsson, hann skannaði svæðið og sá Gísla Laxdal Unnarsson mæta vinstra megin inn í teiginn en skalli hans fór rétt framhjá.

Stuttu síðar vildu Skagamenn víti þegar boltinn virtist fara í höndina á Sölva Geir í teignum. Hann var með höndina upp við líkamann en Guðmundur Benediktsson benti á það í lýsingunni í leiknum að hann hafi nú séð dæmt víti á svona atvik. Ekkert var hins vegar dæmt.

Á 18. mínútu tóku Víkingar forystuna. Pablo Punyed fékk boltann fyrir utan teiginn, var með Erling Agnarsson fyrir framan sig og hann tók skrefið fyrir aftan varnarmann á hárréttum tíma, fékk boltann og lagði hann hægra megin við Árna Marinó Einarsson og í netið.

Gísli Laxdal átti rosalegt skot á 23. mínútu. Boltinn var á leið í samskeytin en Ingvar Jónsson varði meistaralega í markinu.

Kári Árnason talaði um handritið og að vinna tvöfalt í viðtölum fyrir leik en það virðist sem hann hafi hreinlega skrifað það sjálfur því hann gerði annað mark Víkinga undir lok fyrri hálfleiks eftir hornspyrnu. Pablo Punyed átti hornspyrnu og fékk Kári boltann einhvern í sig og í netið. Staðan 2-0 í hálfleik.

Í upphafi þess síðari gat Erlingur gert út um leikinn er hann komst einn gegn Árna Marinó en markvörðurinn ungi sá við honum. Þá átti Kristall Máni Ingason fast skot úr aukaspyrnu stuttu síðar en boltinn rétt framhjá markinu.

Á 62. mínútu átti Pablo Punyed skot fyrir utan teig sem hafnaði í stöng. Boltinn datt svo fyrir Kristal Mána en hann skaut framhjá úr ákjósanlegu færi.

Skagamenn fengu gullið tækifæri til að komast inn í leikinn á 65. mínútu. Steinar Þorsteinsson var hægra megin í teignum, sá Gísla aleinan vinstra megin. Gísli var einn gegn Ingvari en hann varði frábærlega. Ingvar ótrúlegur í sumar.

Kwame Quee kom inná sem varamaður á 68. mínútu og fjórum mínútum síðar átti hann fast skot í stöng. Árni Marinó stóð frosinn á línunni.

Víkingar voru alltaf líklegir til að bæta við fleiri mörkum, heldur en Skagamenn að ná að koma sér inn í leikinn. Það skilaði sér í þriðja markinu í uppbótartíma. Helgi Guðjónsson kom inná sem varamaður í leiknum og skoraði á síðustu sekúndum leiksins er hann keyrði upp vinstri vænginn, inn í teig og klobbaði Árna Marinó og í netið.

Víkingar verja bikarmeistaratitilinn og vinna tvöfalt í ár. Ótrúlegur árangur liðsins. Fullkomin leið til að kveðja Kára og Sölva Geir, þetta verður lengi í minnum þeirra og í raun allra í hópnum.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner