Arsenal endurnýjar áhuga á Luiz - Man Utd reynir við Todibo - Tottenham vill Sudakov
   mán 16. nóvember 2020 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fimmtán erlendir þjálfarar sem eru mögulega valkostir fyrir Ísland
Icelandair
Birkir Bjarnason og Åge Hareide spjalla saman.
Birkir Bjarnason og Åge Hareide spjalla saman.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bo Henriksen.
Bo Henriksen.
Mynd: Getty Images
Roy Hodgson. Hann stýrði Englandi í tapi gegn Íslandi á EM 2016.
Roy Hodgson. Hann stýrði Englandi í tapi gegn Íslandi á EM 2016.
Mynd: Getty Images
Lalla heim.
Lalla heim.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Philip Cocu.
Philip Cocu.
Mynd: Getty Images
Ståle Solbakken hefur unnið dönsku úrvalsdeildina átta sinnum.
Ståle Solbakken hefur unnið dönsku úrvalsdeildina átta sinnum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erik Hamren mun hætta sem landsliðsþjálfari Íslands eftir leik gegn Englandi næsta miðvikudag.

Hamren hefur stýrt Íslandi síðan 2018 og gert það ágætlega. Undir hans stjórn var liðið nokkrum mínútum frá því að komast á EM sem fram fer næsta sumar, en því miður tókst það ekki.

Í útvarpsþættinum Fótbolta.net á laugardag var tekinn saman listi yfir fimm líklegustu Íslendingana til að taka við af Hamren. Þann lista má sjá með því að smella hérna.

En hvað ef KSÍ tekur ákvörðun um að ráða erlendan þjálfara? Það hefur virkað áður. Hér eru möguleikar sem knattspyrnusambandið gæti skoðað. Sumir kannski raunhæfari en aðrir.

Åge Hareide
Norðmaður sem þjálfaði danska landsliðið frá 2016 til 2020 með mjög góðum árangri. Hann tapaði aðeins þremur leikjum af 42 með Danmörku en þótti ekki spila nægilega fallegan fótbolta. Mjög árangursríkur var þó fótboltinn hans og það kunnum við Íslendingar að meta. Hefur stýrt liðum til sigurs í úrvalsdeildunum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Er núna þjálfari norska liðsins Rosenborg og er með samning þar fram á næsta ár. Hinn 67 ára gamli Hareide hefur þjálfað nokkra íslenska leikmenn og er í miklum metum hjá þeim sem hann hefur þjálfað.

Alberto Zaccheroni
Ítalinn hefur stýrt skútunni hjá ítölskum stórliðum á borð við Lazio, AC Milan, Inter og Juventus. Þá hefur hann þjálfað landslið Japans og Sameinuðu arabísku furstadæmana. Reynslumikill þjálfari sem spilar oftast 3-4-3 leikkerfið.

Allan Kuhn
Danskur þjálfari sem var boðið að taka við Breiðabliki árið 2017. Kuhn hafnaði hins vegar tilboðinu. Kuhn er 52 ára gamall og stýrði hann Malmö til sigurs í sænsku úrvalsdeildinni 2016. Hann var þá aðstoðarþjálfari Álaborg þegar liðið varð danskur deildar- og bikarmeistari 2014. Var síðast þjálfari Hobro í dönsku úrvalsdeildinni en var rekinn þaðan í fyrra.

Bo Henriksen
Á leikmannaferli sínum var Henriksen sóknarmaður og lék hann á Íslandi með Val, Fram og ÍBV 2005-2006. Frá því að skórnir fóru upp á hillu hefur hann þjálfað í Danmörku, fyrst Brønshøj og síðan Horsens. Hann hefur náð nokkuð flottum árangri í þjálfun. Henriksen er skipulagður þjálfari og líflegur karakter. Kjartan Henry Finnbogason spilaði undir hans stjórn í Horsens og lýsti honum skemmtilega í viðtali í útvarpsþættinum árið 2016. Hljómar svolítið eins og hinn danski Jurgen Klopp.

Fyrrum enskur landsliðsþjálfari (Allardyce, Hodgson, McClaren, Eriksson)
Tveir af síðustu þremur landsliðsþjálfurum Íslands hafa verið fyrrum landsliðsþjálfarar Svíþjóðar. Það gæti verið möguleiki að skoða fyrrum landsliðsþjálfara Englands; Steve McClaren var nefndur í útvarpsþættinum á laugardag, Roy Hodgson er líklega á sínu síðasta tímabili með Crystal Palace og Sam Allardyce hlýtur að vilja fara að komast aftur í þjálfun. Gæti einhver þeirra verið tilbúinn í ævintýri með Íslandi. Og þá má ekki gleyma Svíanum Sven Göran-Eriksson sem hafði áhuga á að taka við Sheffield Wednesday á dögunum.

Ian Burchnall
Annar Englendingur. Burchnall er aðeins 37 ára gamall og hefur farið leið sem enskir þjálfarar taka yfirleitt ekki. Hann fékk ekki starf í Englandi og leitaði því til Skandinavíu. Hann er ekki frægur fyrir leikmannaferil sinn en byrjaði 22 ára að þjálfa hjá háskólanum í Leeds. Hann varð síðar þjálfari hjá akademíum Leeds og Bradford. Hann hefur þjálfað Viking í Noregi og Östersund í Svíþjóð, og er hann mjög vel liðinn hjá báðum félögum. Hann tók við Östersund af landa sínum, Graham Potter, þegar Potter fékk tækifæri í enska boltanum. Burchnall hætti hjá Östersund þar sem hann var ekki sammála stjórn félagsins um markmiðasetningu. Stuðningsmenn Östersund héldu veislu til að þakka Burchnall fyrir störf hans þegar Englendingurinn hætti.

Lars Lagerbäck
Kannski óskhyggja meira en eitthvað annað. Lars tók við Íslandi og náði mögnuðum árangri ásamt Heimi Hallgrímssyni með íslenska landsliðið. Hann þjálfar í dag norska landsliðið, en Norðmenn fýla hann ekki. Lars, við elskum þig. Þú ert velkominn heim.

Michael Laudrup
Danska goðsögnin er án starfs en frá 2014 til 2018 þjálfaði hann í Katar. Hann var síðast þjálfari Al Rayyan. Hann gerði fína hluti með Swansea í ensku úrvalsdeildinni frá 2012 til 2014 áður en hann var rekinn. Var magnaður fótboltamaður og spilaði meðal annars fyrir bæði Barcelona og Real Madrid.

Phillip Cocu
Rekinn frá Derby County síðasta laugardag. Cocu er fyrrum hollenskur landsliðsmaður og hann er mikill stuðningsmaður þess að spila fótbolta meðfram jörðinni eins og hægt er. Það virkaði ekki alveg í Championship-deildinni, en hann vann hollensku úrvalsdeildina þrisvar með PSV. Það sem hann gerði vel með Derby er að hann kom mörgum ungum leikmönnum upp í aðalliðið en það er eitthvað sem þarf að gerast í landsliðinu á næstum árum. Cocu gæti komið með allt annan leikstíl inn í landsliðið.

Rikard Norling
Ef við kjósum að fara sænsku leiðina aftur, þá hlýtur Norling að vera nafn á borði. Þurfti að hætta í fótbolta 21 árs vegna meiðsla og byrjaði strax að þjálfa. Hann hefur unnið sænsku úrvalsdeildina sem þjálfari, bæði með Malmö og AIK. Hann stýrði AIK til sigurs í deildinni 2018 og setti liðið þá stigamet. Hann er núna án félags en hann var rekinn frá AIK fyrr á þessu ári eftir erfiðan byrjun í sænsku úrvalsdeildinni.

Roy Keane
Nei, hættu nú alveg. Það gleymist að KSÍ fór í viðræður við Keane áður en Lägerback tók við 2011. Þessi fyrrum fyrirliði Manchester United fær ekki þjálfarastarf í Englandi og þarf að sætta sig við það að vinna sem sérfræðingur í sjónvarpi, en við það starf hefur fengið mikla athygli enda liggur hann svo sannarlega ekki á skoðunum sínum. Var orðaður við landsliðsþjálfarastarf Aserbaídsjan fyrr á árinu áður en Gianni De Biasi tók við því.

Ståle Solbakken
Annar Norðmaðurinn á listanum. Solbakken spilaði 58 landsleiki fyrir Noreg og hefur gert flotta hluti sem þjálfari. Hann hefur tvisvar stýrt FC Kaupmannahöfn í Danmörku og hefur hann unnið dönsku úrvalsdeildina átta sinnum með FCK. Hefur einnig stýrt HamKam í Noregi, Köln í Þýskalandi og Wolves í Englandi. Er á lausu þar sem hann var rekinn frá Kaupmannahöfn í síðasta mánuði.
Athugasemdir
banner
banner