Kári Árnason og Lárus Orri Sigurðsson fóru aðeins yfir leikinn og horfðu til framtíðar hvað varðar íslenska karlalandsliðið eftir að HM-draumurinn var úti í kvöld.
Lestu um leikinn: Úkraína 2 - 0 Ísland
Kjartan Atli Kjartansson spurði þá ef þeir gætu breytt einu hvað það væri og sagði Kári að hann hefði viljað hafa Gylfa Þór Sigurðsson í hópnum.
Gylfi hefur ekki enn fengið kallið síðan Arnar Gunnlaugsson tók við, þrátt fyrir að hafa spilað frábærlega með Víkingum og orðið Íslandsmeistari.
Hann kemur inn með mikilvæga reynslu en Arnar ákvað að velja hann ekki í mikilvægasta verkefnið.
„Ég hefði alltaf valið Gylfa Sig í þetta verkefni. Alveg þægilegt þegar þig vantar mark að setja hann inn á. Af hverju er hann ekki með? Ég veit það ekki.“
„Það er stutt síðan tímabilið kláraðist og hann er 'forever-fit'. Hleypur manna mest í deildinni og getur leyst þetta djúpa hlutverk gríðarlega vel sem gæti leyft Hákoni að fara aðeins framar og reynslumeiri og vanur að draga vagninn.“
„Talandi um nostalgíu. Það væri gaman að Jóa hafi lagt upp í fyrri leiknum gegn Aserbaídsjan og Gylfi skorað tvö eins og hann gerði þegar við unnum Úkraínu heima í aðdraganda HM. Við unnum þann leik 2-0. Það hefði verið skemmtilegur vinkill,“ sagði Kári.
Kári vill halda í fjögurra manna varnarlínu og svo verður hægt að bæta liðið og breyta með tímanum.
„Vörnin er ekki að yngjast en hinir eru að verða reynslumeiri og betri. Segjandi það er þetta pínu 'lightweight' miðja. Þeir eru frábærir í fótbolta og á boltanum. Ísak með æðislegar sendingar og Hákon getur dræva boltann gríðarlega vel en hvorugur þeirra er djúpur miðjumaður og báðir 'rash'. Þegar Aron var að stíga sín fyrstu skref var hann ekkert fullkominn djúpur miðjumaður en hann varð það síðan því hann hugsaði hvað væri að fara úrskeiðis og ég er hérna til að halda markinu hreinu og er 'station' í leik liðsins. Það er margt sem Ísak ætti að vera rosalega góður í og staðsetja sig rétt, fá boltann, gefa frábærar sendingar, finna Hákon og Albert í lappir og staðsetja sig þannig að þú sért raunverulega að verja vörnina.“
Lárus Orri var ósáttur með hvað Albert var látinn spila mikla varnarvinnu. Hann er helsta ógn íslenska liðsins en það stafaði lítil ógn af honum í kvöld og aðallega af því hann var að spila sérstaka stöðu á vængnum.
„Ef við horfum bara á þennan leik þá svíður það svolítið sem Albert var í. Ég var ekki alveg nógu sáttur við hlutverkið sem hann var í og þeir tala um fyrir leikinn að þetta er okkar stærsta ógn og það sem þeir þurfa að stoppa. Þeir þurftu svo sem ekkert að hafa fyrir því af því hlutverk hans í leiknum var allt of mikið að verjast. Það er ekki hans sterkasta hlið. Hann á að taka þátt í varnarleiknum eins og allir í liðinu en hann var neðarlega á vellinum í einhverjum hlaupum þar. Hann á að vera framar á vellinum og vera einn af okkar fyrstu varnarmönnum þar en vera klár þegar við fáum boltann ofar á vellinum og halda honum. Ég hefði einhvern annan með Hákoni og Ísaki þarna neðar á vellinum og sérstaklega í ljósi þess að það var augljóst að menn voru þreyttir.“
„Ég er fúll en líður ekki eins og það sé eitthvað 'disaster' í gangi, það er bara áfram gakk,“ sagði Lárus í lokin.
Kári ítrekaði það að hann vill sjá fjögurra manna vörn í framtíðinni.
„Ég vil bara sjá liðið vinna með fjögurra manna línu og svo getum við styrkt miðjuna eða hvernig sem það er og láta þessa drengi taka ábyrgð á þessu,“ sagði Kári.
Athugasemdir



