mán 17. febrúar 2020 11:20
Magnús Már Einarsson
Raggi Sig svarar fyrir sig: Þetta er algjört kjaftæði
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ragnar Sigurðsson, varnarmaður FC Kaupmannahöfn og íslenska landsliðsins, var í viðtali hjá BT í Danmörku þar sem hann blés á orðróm þess efnis að hann eigi við áfengisvandamál að stríða. Íslendingavaktin segir frá.

Sjá einnig:
Rostov: Fréttir um áfengisvandamál hjá Ragnari eru rangar

Rússneskir fjölmðilar sögðu frá því í síðasta mánuði að Ragnar hafi verið leystur undan samningi hjá rússneska úrvalsdeildarliðinu Rostov vegna alvarlegra áfengisvandamála. Rostov sendi í kjölfarið frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar fjölmiðla í Rússlandi í tengslum við Ragnar og vísaði þeim fregnum alfarið á bug.

„Það er slúðrað mikið og sagt að maður sé hitt og þetta. Ég er vanur því. Það hafa líka verið sögur um okkur fótboltamennina á Íslandi," sagði Ragnar við BT.

„Eins og þú hefur séð þá steig Rostov fram og sagði að ef fjölmiðlarnir vita ekki hvað þeir eru að tala um þá eigi þeir að halda kjafti. Þeir eiga ekki að skrifa um eitthvað sem þeir hafa ekki hundsvit á. Þá var þessu lokið fyrir mig. Rostov blés strax á söguna og þá þurfti ég ekki að gera neitt."

Aðspurður hvernig þessi saga fór af stað sagði Ragnar: „Það er mikið um slúður í Rússlandi eins og í öðrum löndum. Ég veit ekki, ég hugsa ekki um það. Það eru meira vinir og fjölskylda sem verða pirruð á þessu en ég."

„Ef ég myndi leyfa þessu að hafa áhrif á mig og hausinn minn þá yrði þetta bara verra fyrir mig. Ef ég ætti við áfengisvandamál að stríða þá held ég að ég hefði ekki spilaði í svona langan tíma á meðal þeirra bestu og spilað bæði með landsliðinu og félagsliði. Þetta er algjört kjaftæði,"
sagði Ragnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner