Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 17. mars 2023 22:13
Brynjar Ingi Erluson
England: Newcastle með fimm stiga forystu á Liverpool
Alexander Isak skoraði bæði mörk Newcastle
Alexander Isak skoraði bæði mörk Newcastle
Mynd: Getty Images
Moussa Niakhate átti slæman dag
Moussa Niakhate átti slæman dag
Mynd: Getty Images
Nott. Forest 1 - 2 Newcastle
1-0 Emmanuel Dennis ('26 )
1-1 Alexander Isak ('45 )
1-2 Alexander Isak ('90 , víti)

Newcastle kom til baka gegn Nottingham Forest og vann 2-1 sigur í 28. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á City Ground í kvöld en sænski framherjinn Alexander Isak skoraði bæði mörk gestanna.

Nígeríski framherjinn Emmanuel Dennis kom heimamönnum í Forest yfir á 26. mínútu eftir slæm mistök Sven Botman. Hollenski miðvörðurinn ætlaði að senda boltann til baka á Nick Pope, en það vantaði allan kraft í sendinguna og fór því boltinn ekki lengra en á Dennis.

Hann tók eina gabbhreyfingu til hægri áður en hann vippaði boltanum glæsilega í vinstra hornið. Nokkrum mínútum áður átti Isak skot í þverslá fyrir Newcastle.

Sean Longstaff hamraði öðru skoti í slá eftir rúman hálftíma og vildi boltinn hreinlega ekki inn. Það hlaut þó að koma að markinu og var það Isak sem gerði það eftir fyrirgjöf frá Joe Willock. Isak þurfti að teygja út löppina til að koma boltanum í stöng og inn.

Keylor Navas, markvörður Forest, þurfti að verja nokkrum sinnum í byrjun síðari hálfleiks en gat ekki komið í veg fyrir mark Elliot Anderson á 65. mínútu. Hann var þó heppinn því VAR ákvað að dæma markið af vegna rangstöðu í aðdragandanum en dómurinn þótti afar umdeildur.

Franski varnarmaðurinn Moussa Niakhate var að spila sinn fyrsta leik fyrir Forest síðan í ágúst en endurkoman var ekki eins og hann hafði séð hana fyrir sér. Frakkinn átti slakan leik og kórónaði frammistöðuna með því að sveifla hendinni í teignum í skallaeinvígi og vítaspyrna dæmd.

Isak skoraði úr vítinu og tryggði Newcastle 2-1 sigur. Newcastle er í 5. sæti með 47 stig, fimm stigum meira en Liverpool sem er í sætinu fyrir neðan. Forest er í 14. sæti með 26 stig.
Athugasemdir
banner
banner