Aston Villa og Juventus gátu ekki beðið um betri byrjun í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu, en bæði lið unnu þægilega sigra í kvöld.
Villa-menn voru að spila á stærsta sviði Evrópuboltans í fyrsta sinn síðan tímabilið 1982-1983.
Liðið heimsótti Young Boys til Sviss og voru leikmenn ákveðnir í því að byrja þetta með stæl.
Það var svolítið snúið til að byrja með og Villa-menn reyndu að finna sig á undirlagi sem það er ekki vant, en Young Boys spilar heimaleiki sína á gervigrasvelli.
Young Boys var því með yfirhöndina fyrstu mínúturnar og allt stefndi í að heimamenn myndu gera fyrsta markið en þá tóku Villa-menn við sér og komust í forystu.
Lucas Digne tók hornspyrnuna stutt á John McGinn sem kom boltanum hátt inn á teiginn. Þar var Youri Tielemans einn og óvaldaður, fékk allan tímann í heiminum til að skjóta og setti boltann af öryggi í vinstra hornið.
Seinna mark Villa kom ellefu mínútum síðar eftir hörmulegan varnarleik heimamanna. Varnarmaður Young Boys gat hreinsað frá en ákvað í staðinn að senda boltann á markvörð liðsins. Ollie Watkins komst fyrir sendinguna en var tekinn niður í teignum. Það kom ekki að sök því Jacob Ramsey var mættur til að leggja boltann í netið.
Undir lok hálfleiksins kom Watkins boltanum í netið en markið dæmt af þar sem Englendingurinn handlék boltann í aðdragandanum.
Villa-menn byrjuðu vel í síðari hálfleiknum en voru í basli með að ná að gera endanlega út um leikinn. Diego Carlos, varnarmaður Villa, var nálægt því að gefa heimamönnum mark á silfurfati eftir slaka sendingu Brasilíumannsins en Emiliano Martínez kom til bjargar.
Heimamenn efldust aðeins við það og fóru að reyna á Martínez, en Argentínumaðurinn var öruggur í aðgerðum sínum. Stjarna helgarinnar, Jhon Duran, kom inn af bekknum hjá Villa og kom með svipaðan kraft og um helgina.
Hann kom boltanum í netið á 78. mínútu en aftur kom VAR heimamönnum til bjargar. Amadou Onana handlék boltann í aðdraganda marksins og staðan áfram 2-0.
Fimm mínútum fyrir leikslok kom markið sem gerði út um leikinn en það gerði Onana með hörkuskoti af 25 metra færi, neðst í vinstra hornið.
Lokatölur í Sviss, 3-0, Aston Villa í vil. Frábær byrjun hjá Villa-mönnum sem mæta næst Bayern München í byrjun október.
Þægilegt hjá Juventus
Ítalska stórliðið Juventus vann þá þægilegan 3-1 sigur á PSV Eindhoven í Tórínó.
Hinn 19 ára gamli Kenan Yildiz kom Juventus á bragðið með frábæru marki á 21. mínútu. Tyrkneska undrabarnið fékk boltann á vinstri vængnum, leitaði inn í teiginn og smellti honum í samskeytin hægra megin.
Bandaríski landsliðsmaðurinn Weston McKennie gerði annað markið sex mínútum síðar. Heimamenn keyrðu upp hægra megin og kom boltinn inn á teiginn á Dusan Vlahovic. Hann náði ekki að skýla boltanum og komst varnarmaður í boltann, sem rann síðan til McKennie sem skoraði af öryggi.
Nicolas Gonzalez, sem kom til Juve frá Fiorentina undir lok gluggans, gerði þriðja mark Juventus. Vlahovic kom með laglega sendingu inn á teiginn og á Gonzalez sem var einn á móti markverði. Gonzalez lyfti boltanum vinstra megin við markvörð PSV og í netið.
Ismael Saibari minnkaði muninn fyrir PSV seint í uppbótartíma og þar við sat. Lokatölur 3-1 fyrir Juventus sem mætir næst þýska liðinu RB Leipzig.
Úrslit og markaskorarar:
Juventus 3 - 1 PSV
1-0 Kenan Yildiz ('21 )
2-0 Weston McKennie ('27 )
3-0 Nicolas Gonzalez ('52 )
3-1 Ismael Saibari ('90 )
Young Boys 0 - 3 Aston Villa
0-1 Youri Tielemans ('27 )
0-2 Jacob Ramsey ('38 )
0-3 Amadou Onana ('86 )
Athugasemdir