Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 17. október 2020 15:42
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Kristján Guðmunds: Sundrung og umræða á lágu plani
Kristján Guðmundsson.
Kristján Guðmundsson.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristján Guðmundsson, þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar, segir að stjórn KSÍ þurfi að sýna það og sanna að hún er í forystuhlutverki í þessari hreyfingu.

Kristján var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 í dag og ræddi meðal annars um stöðuna í íslenska boltanum.

Mótið er stopp vegna heimsfaraldursins og stjórn KSÍ er að funda um framhaldið.

„Stjórn KSÍ þarf að koma fram sem foringinn á þessari hreyfingu og taka ákvörðun. Þau hafa gefið út að það verði tekin ákvörðun á mánudaginn með hagsmuni knattspyrnuhreyfingarinnar í forgrunni," segir Kristján.

„Umræðan á síðustu dögum og vikum hefur farið á frekar lágt plan. Það er verið að uppnefna fólk í öðrum félögum og segja að það sé óheiðarlegt í sinni nálgun og umfjöllun. Það er ákveðin sundrung í knattspyrnuhreyfingunni og stjórn KSÍ þarf að sýna það núna að það eru þau sem stjórna."

„Þau þurfa að koma fram og taka á þessum málum og róa og sameina hreyfinguna á ný því þetta gengur ekki."

Stjórn KSÍ þarf að standa í lappirnar
Kristján talar um þá undanþágur sem fótboltinn hefur fengið hingað til á meðan takmarkanir eru í gildi í þjóðfélaginu.

„Fótboltinn hefur verið freki frændinn í partýinu og beðið um ýmsar undanþágur eða fá að fara framhjá reglum. Hann hefur fengið það en efndir knattspyrnuhreyfingarinnar hafa ekki verið nægilega góðar. Við þurfum að styrkja okkar ímynd á ný og taka þátt í að verja líf fólks í landinu," segir Kristján.

„Stjórn KSÍ þarf að sýna það og sanna að hún er í forystuhlutverki í þessari hreyfingu. Hún þarf að bæta ímyndina sem hefur beðið hnekki. Stjórnin þarf að rökstyðja þá ákvörðun sem hún tekur. Ef það er tekin ákvörðun um að spila þá rökstyður hún það hvernig það er hægt."

„Ef ekki þá liggur fyrir regluverk frá því um hvernig á að klára mótið ef ekki er hægt að spila fyrir 1. desember. Það vissu allir frá því að regluverkið var sett upp hvernig þetta myndi klárast ef það þyrfti að stoppa. Það er engin afsökun að tala um það núna hvernig þetta virkar. Þetta var ákveðið og stjórn KSÍ þarf að standa í lappirnar með það, eða finna leið til að spila."

Sjálfur segist Kristján erfitt að segja til um hver niðurstaðan verði hjá stjórn KSÍ.

„Mig grunar að það verði ekki spilað meira. Við höfum verið saman í tvær vikur án þess að æfa. Það blasir við að þær verði þrjár til viðbótar, þá ertu kominn í fimm vikur án þess að æfa. Áður en við lentum í þessum tilmælum þá voru leikmenn hjá mér farnir að biðja um að koma ekki á æfingar," segir Kristján en umræðuna má heyra í spilaranum hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Landsliðið, ástandið og enski
Athugasemdir
banner
banner
banner