sun 17. október 2021 06:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þjálfarinn sem fékk Cecilíu til Everton látinn fara
Cecilía Rán Rúnarsdóttir.
Cecilía Rán Rúnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kvennalið Everton á Englandi hefur rekið þjálfarann Willie Kirk eftir slæma byrjun á tímabilinu.

Everton hefur unnið tvo af fyrstu fimm leikjum sínum í ensku úrvalsdeildinni og situr liðið í áttunda sæti. Sá árangur þykir ekki ásættanlegur.

Á síðasta tímabili hafnaði Everton í fimmta sæti deildarinnar og vonaðist félagið til að gera betur á þessu tímabili.

Það er enn tími til að gera betur; tímabilið er ungt. En félagið telur þörf á nýjum þjálfara.

Jean-Luc Vasseur, fyrrum þjálfari franska stórliðsins Lyon, þykir líklegur í starfið. Hann gerði Lyon að Evrópumeisturum 2020 með Söru Björk Gunnarsdóttur, landsliðsfyrirliða Íslands, í liðinu.

Landsliðsmarkvörðurinn efnilegi Cecilía Rán Rúnarsdóttir fer til Everton þegar tímabilið í Svíþjóð klárast. Hún er núna hjá Örebro. Kirk fékk hana til Everton og það verður fróðlegt að sjá hvort þessi ákvörðun félagsins hafi einhver áhrif á það hvert hennar hlutverk verður þegar hún fer til Englands.
Athugasemdir
banner
banner