Sænski framherjinn Zlatan Ibrahimovic er elsti markaskorari í sögu efstu deildar á Ítalíu.
Udinese er að vinna Milan, 2-1, í hálfleik í Seríu A. Zlatan er í fyrsta sinn í byrjunarliði Milan á tímabilinu eftir að hafa gengið í gegnum erfið meiðsli.
Roberto Pereyra kom Udinese í forystu á 9. mínútu en undir lok hálfleiksins fékk Milan vítaspyrnu eftir að Jaka Bijol handlék boltann í teignum.
Marco Silvestri varði vítaspyrnuna frá Zlatan en Svíinn fékk að fara aftur á punktinn þar sem Beto, leikmaður Udinese, var kominn inn í teiginn er Zlatan tók spyrnuna.
Zlatan klikkaði ekki í seinni tilrauninni og þrumaði í raun boltanum það fast að Silvestri átti ekki möguleika. Zlatan er því elsti markaskorari í sögu efstu deildar á Ítalíu.
Alessandro Costacurta var 41 árs og 25 daga gamall þegar hann skoraði í efstu deild en Zlatan bætti það. Hann er 41 árs og 166 daga gamall. Magnaður.
Fagnaðarlætin stóðu ekki yfir lengi því Beto kom Udinese í 2-1 áður en flautað var til loka fyrri hálfleiks.
Sjáðu vítaspyrnuna hér
Athugasemdir