mið 18. maí 2022 20:48
Brynjar Ingi Erluson
Einn besti leikmaður CSKA tekur sér frí frá fótbolta - Ætlar heim til Brasilíu
Mario Fernandes hefur að öllum líkindum spilað sinn síðasta leik fyrir CSKA
Mario Fernandes hefur að öllum líkindum spilað sinn síðasta leik fyrir CSKA
Mynd: Getty Images
Rússneski landsliðsmaðurinn Mario Fernandes tilkynnti í dag ákvörðun sína um að taka sér frá frá fótbolta en hann ætlar að snúa til heimalandsins.

Fernandes, sem er 31 árs gamall, er fæddur og uppalinn í Brasilíu en hann kom til CSKA Moskvu frá Gremio árið 2012.

Hann fékk ríkisborgararétt í Rússlandi árið 2017 og ákvað að spila fyrir hönd rússneska landsliðsins þar sem hann hefur verið lykilmaður síðustu árin.

Fernandes hefur verið með bestu mönnum CSKA síðasta áratuginn en hann framlengdi samning sinn við félagið í fyrra. Nú hefur hann hins vegar ákveðið að taka sér frí frá fótbolta og ætlar aftur til Brasilíu og mun einbeita sér að fjölskyldunni.

„Eftir leikinn gegn Rostov mun ég fara til Brasilíu en ef ég finn styrkinn aftur til að hjálpa CSKA þá mun ég snúa aftur og spila fyrir félagið. Ég vil samt að það komi fram að ég er ekki að fara frá Rússlandi vegna ástandsins í landinu eða útaf slæmu gengi liðsins," sagði Fernandes meðal annars, en það þykir afar ólíklegt að hann snúi aftur til félagsins.

Það hefur mikið gengið á í herbúðum CSKA síðustu vikur og mánuði og má gera ráð fyrir miklum breytingum á hópnum en Arnór Sigurðsson og Hörður Björgvin Magnússon eru báðir á mála hjá félaginu.
Athugasemdir
banner
banner
banner