Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   mán 19. febrúar 2024 16:36
Hafliði Breiðfjörð
Tvö óvænt nöfn spiluðu með Selfossi - Bað eiginkonuna fallega um að spila
Björn Sigurbjörnsson og Sif Atladóttir ræða saman á hliðarlínunni í fyrrasumar. Sif hætti að tímabilinu loknu en hún er eiginkona Björns sem plataði hana til að spila aftur með liðinu í gær.
Björn Sigurbjörnsson og Sif Atladóttir ræða saman á hliðarlínunni í fyrrasumar. Sif hætti að tímabilinu loknu en hún er eiginkona Björns sem plataði hana til að spila aftur með liðinu í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Magdalena Anna Reimus var búin að snúa sér að dómgæslu en hefur hug á að hjálpa Selfossi í Lengjudeildinni í sumar.
Magdalena Anna Reimus var búin að snúa sér að dómgæslu en hefur hug á að hjálpa Selfossi í Lengjudeildinni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Unnur Dóra er fædd árið 2000 og með elstu leikmönnum Selfoss liðsins. Hún er fyrirliði.
Unnur Dóra er fædd árið 2000 og með elstu leikmönnum Selfoss liðsins. Hún er fyrirliði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigríður Theódóra og Emilía deildu bíl yfir Hellisheiðina í fyrra.
Sigríður Theódóra og Emilía deildu bíl yfir Hellisheiðina í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Barbára gekk í raðir Breiðabliks eftir tímabilið.
Barbára gekk í raðir Breiðabliks eftir tímabilið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ólöf Sigríður fór með strætó upp á Akranes 14 ára gömul til að spila með ÍA.
Ólöf Sigríður fór með strætó upp á Akranes 14 ára gömul til að spila með ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Björn Sigurbjörnsson.
Björn Sigurbjörnsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tveir leikmenn sem voru hættir fótbolta spiluðu með Selfossi gegn Val í Lengjubikar kvenna í gær en þetta eru gamla landsliðskonan Sif Atladóttir sem lagði skóna á hilluna að tímabilinu loknu í fyrra og Magdalena Anna Reimus sem hafði snúið sér að dómgæslu.

Ekki er komið á hreint hvort Madgalena Anna ætli sér að taka fram skóna að fullu en nokkuð ljóst er að Sif Atladóttir er hætt í fótboltanum þó hún hafi bjargað liðinu í gær.

Bað eiginkonuna fallega um að spila fyrir sig
„Sif var með okkur útaf manneklu, það er ágætt að eiga hana heima hjá sér," sagði Björn Sigurbjörnsson þjálfari Selfoss við Fótbolta.net í dag en hann er eiginmaður Sifjar svo það voru hæg heimatökin.

„Við erum búin að vera að æfa á litlum hóp leikmanna í allan vetur og svo komu upp óvænt veikindi í vikunni sem gerðu það að verkum að ég þurfti að biðja hana fallega að spila fyrir mig," hélt hann áfram.

„Sif hefur verið í kringum okkur aðeins því hún hefur hjálpað til með varnarleik. Þó hún sé búin að leggja skóna á hilluna þá náði hún að taka eina æfingu með okkur á föstudaginn sem var fyrsta æfingin síðan í haust. Hún stóð sig bara fjandi vel og ég myndi gjarnan vilja að hún yrði áfram en ég veit að hún er komin á kaf í annað og verður að fá rými til að sinna því. Hún og börnin okkar meta það líka að vera meira saman og nú er hún líka í stífu námi og mikið erlendis. Það býður ekki upp á að vera á fullu í fótboltanum."

Dæmdi leikina í fyrra en var ferlega góð í gær
Magdalena Anna Reimus er fædd árið 1995 og uppalin hjá Hetti. Hún hafði spilað með Selfossi frá árinu 2015 og varð bikarmeistari með liðinu árið 2019. Hún ákvað að leggja skóna á hilluna fyrir tímabilið í fyrra og sneri sér að dómgæslu og var fljót að vinna sig upp þar.

„Magdalena var aðeins búin að nefna það að hana langaði til að taka fram skóna aftur og var búin að æfa aðeins með okkur. Það er hriklegur fengur í henni og hún var ferlega góð í þessum leik í gær," sagði Björn.

„Hún kemur á þeim forsendum að hún er að hjálpa mér með ungu stelpurnar í liðinu og spilar og gefur af sér. Hún er ekki alveg á þeim forsendum og síðast þegar hún var í þessu þegar hún var all-in og ætlaði sér stóra hluti. Öll reynsla er vel þegin þegar við erum með svona ung lið eins og núna."

Er þá öruggt að hún verði með í sumar?
„Já að einhverju leiti. Hvort það verði sem leikmaður að fullu er erfitt að segja til um. Hún hefur haft metnað fyrir dómgæslunni og sinnti henni á fullu í fyrra. Hún var farin að horfa upp á feril þar en svo þegar hún sá stöðuna í félaginu þar sem hefur verið gríðarlegt brottfall var hún tilbúin að koma inn."

Rosalega blóðugt að horfa upp á þetta
Selfoss féll úr Bestu-deildinni á síðustu leiktíð og leikur því í Lengjudeildinni í sumar. Eftir það hafa margir leikmenn farið á braut.

„Þetta er gríðarlegt brottfall sem við höfum orðið fyrir. Það eru 14 leikmenn sem hafa farið hjá okkur. Sif hætti, Áslaug fór út, Katla fór út, Íris og Kristrún fóru í Þrótt og Barbára fór í Breiðablik. Svo voru það erlendu leikmennirnir sem fóru, Emilía fór aftur til Svíþjóðar og Sigga aftur í Val."

„Þetta er búið að vera rosalega blóðugt að horfa upp á þetta en sem betur fer byrjuðum við á því þegar ég kom hingað að lyfta upp ungum stelpum. Þær eru því margar hverjar komnar lengra en þær hefðu verið ef ég hefði ákveðið að vera með lítinn hóp og ekki hugsað til framtíðar. Þetta er algjör ný uppbygging hjá okkur og þá er gott að eiga leikmenn eins og Unni Dóru Bergsdóttur og Magdalenu sem geta hjálpað til við að lyfta þessum stelpum upp á næsta stall.


Taka inn útlendinga en mega ekki vera of margir
Ertu að fara með svona ungt lið inn í mótið eða ertu að fara að kaupa útlendinga?

„Við verðum klárlega með rosalega ungan hóp en við erum pottþétt að fara að taka inn erlenda leikmenn," sagði hann.

„Það eru talsverðar hræringar í því en það snýst um hvað þarf að taka marga til að geta hjálpað leikmönnunum. Það má ekki taka of marga erlenda leikmenn og taka leiktíma af leikmönnum sem eru kannski tilbúnir. Það þarf að finna jafnvægi í þessu," sagði Björn.

„Ef ég tek fjóra útlendinga, er það þá nóg til að koma liðinu upp og erum við þá tilbúin að vera í efstu deild?," hélt hann áfram. „Á ég frekar að vera með þrjá? Það er erfitt að finna rétt jafnvægi í þessu."

Alls ekki skýrt markmið að fara beint upp aftur
Það var ekki kvennalið félagsins sem féll niður um deild á síðasta ári því karlaliðið féll niður í 2. deildin asem er þriðja efsta deild.

„Félagið okkar beið talsvert högg þegar bæði karla- og kvennaliðin féllu og nú er verið að reyna að horfa til lengri tíma með uppbyggingu og halda þeim leikmönnum sem við eigum við efnið og gefa þeim leiktíma."

Er þá ekki alveg skýrt markmið að Selfoss ætli sér upp aftur í Bestu-deildina á næsta ári?

„Nei, það er alls ekki skýrt markmið að fara beint upp aftur," sagði Björn.

„Ef það gerist þá gerist það en það sem er mikilvægt núna er að leikmennirnir okkar fái reynsluna sem til þarf að geta spilað í meistaraflokki. Ef við tökum Sif og Madgalenu út úr menginu yfir þá leikmenn sem spiluðu í gær þá er Eva markvörður fædd 1996 og með heilmikla reynslu, svo er Unnur Dóra fyrirliði fædd árið 2000 en allar aðrar fæddar 2004 og seinna og hafa ekki mikla leikreynslu."

„Ég setti svo inná stelpu fædda 2008 og tvær fæddar 2009 sem hafa varla fengið meistaraflokksæfingu. Þetta er rosalega ungt og þær þurfa að fá að spila. Það veltur á hversu hratt þær þroskast hvort þær nái að takast á við að vera í efstu deild á næstu einu til tveimur árum. Við stefnum á að byggja upp uppá nýtt og sjá hvert það leiðir okkur."


Það verður oft mikið tekjufall hjá liðum að falla úr efstu deild en aðspurður hvort félagið gæti áfram staðið með honum í að styrkja við liðið með útlendingum þrátt fyrir það sagði Björn.

„Já, en það er samt takmörkunum háð svo það sé á hreinu. Við erum að súpa seyðið af óförunum okkar í fyrra en það var kostnaður á bakvið alla leikmennina sem hafa farið frá okkur frá í fyrra og kostnaðarliðirnir eru talsvert minni og færri í þessum ungu leikmönnum og því er smá rými. Félagið verður að horfa í að þær munu ekki geta gert þetta einar. Það er ósanngjarnt gagnvart þeim að setja 2. flokkinn í Lengjudeildina. Það er einhugur um að við þurfum að styrkja aðeins og svo er vonandi hægt að horfa í að fá einhverja leikmenn að láni til að brekka og stækka hópinn hjá okkur."

Mættu skælbrosandi á æfingar eftir akstur yfir heiðina
Liðin í Lengjudeildinni hafa oft geta treyst á að fá leikmenn að láni sem eru ekki að komast í liðið í Bestu-deildinni en það hefur gengið illa hjá Selfossi í vetur að ná í slíka leikmennn.

„Það er búið að reyna ýmislegt innanlands en það er rosalega erfitt að fá leikmenn sem eru tilbúnir að keyra á milli þessa stuttu vegalengd sem ég keyri sjálfur reglulega. Það virðist vera miklu styttra frá Selfossi í bæinn en öfugt," sagði Björn.

Selfoss fékk Sigríði Theódóru Guðmundsdóttur á láni frá Val á síðustu leiktíð og Emilíu Óskarsdóttur frá Kristianstad en þær deildu bíl yfir Hellisheiðina til að mæta á æfingar liðsins.

„Það var meira tilkomið því ég þekkti til Emilíu fyrir og þær góðar vinkonur. Þær skemmtu sér ótrúlega vel saman í bílnum og komu alltaf skælbrosandi á æfingar. Það er svo lítið mál að keyra þetta en það fer tími í þetta og þegar maður er í tímaþröng út af námi eða vinnu skilur maður að það geti verið flókið. Þetta er allt spurning um að horfa á hvað er best fyrir þig fótboltalega, stundum gæti það verið að fara út fyrir bæinn og gera eitthvað nýtt. Ólöf Sigríður gerði það 14 ára þegar hún fór í strætó upp á Akranes til að spila leiki á láni frá Val. Það skilaði sér heldur betur til hennar."
Athugasemdir
banner