Spænska félagið Athletic Bilbao er í viðræðum við Al-Nassr um kaup á miðverðinum þaulreynda Aymeric Laporte.
Laporte er 31 árs gamall og er hann uppalinn hjá Athletic. Hann var lykilmaður í hjarta varnarinnar hjá liðinu í um fjögur ár áður en hann var keyptur til Manchester City í janúar 2018. Man City greiddi tæplega 60 milljónir punda fyrir.
Al-Nassr keypti varnarmanninn svo frá Man City fyrir tveimur árum síðan fyrir um 25 milljónir punda.
Laporte er núna með aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við Al-Nassr, þar sem hann er samherji Cristiano Ronaldo, Sadio Mané og fleiri stórstjarna. Hann hefur þó ekki tekið þátt í síðustu fimm leikjum liðsins í Sádi-Arabíu eftir að hafa rifist við Stefano Pioli þjálfara undir lok síðustu leiktíðar. Pioli var rekinn en Laporte er ekki talinn hafa áhuga á að spila lengur í Sádi-Arabíu.
Leikmaðurinn vill snúa aftur til Evrópu til að auka möguleika sína á sæti í spænska landsliðinu. Hann hefur ekki spilað einn leik fyrir Spán á þessu ári eftir að hafa verið lykilmaður í sigri landsliðsins á EM í fyrra.
Það er því útlit fyrir að Laporte sé að snúa aftur heim ef Athletic tekst að semja við Al-Nassr um kaupverð.
Athugasemdir