Gríntilboð í Ederson - Trafford gæti verið á heimleið - Simons í ensku úrvalsdeildina?
   lau 19. júlí 2025 18:02
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: KA hafði betur í botnslagnum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA 2 - 0 ÍA
1-0 Jóan Símun Edmundsson ('16)
2-0 Hallgrímur Mar Steingrímsson ('84)

Lestu um leikinn: KA 2 -  0 ÍA

KA og ÍA áttust við í seinni leik dagsins í Bestu deild karla og tóku heimamenn forystuna eftir rétt rúman stundarfjórðung á Akureyri.

Færeyingurinn Jóan Símun Edmundsson skoraði auðvelt mark eftir góða sókn þar sem Hallgrímur Mar Steingrímsson og Ingimar Torbjörnsson Stöle bjuggu til markið fyrir hann.

Það var lítið annað að frétta í fyrri hálfleiknum þar sem bæði lið fengu hálffæri og vildu heimamenn fá dæmda vítaspyrnu fyrir hendi, en fengu ekki.

Leikurinn hélt áfram í sama fari í síðari hálfleik þar sem lítið var um færi allt þar til á lokakaflanum. Viktor Jónsson skallaði í slá á 82. mínútu en tveimur mínútum síðar innsiglaði Hallgrímur Mar Steingrímsson sigur KA-manna með skoti sem breytti um stefnu af varnarmanni og rúllaði í netið.

Lokatölur 2-0 fyrir KA í þessum áhugaverða botnslag. ÍA situr áfram á botninum með 15 stig en KA er komið upp í 18 stig. Akureyringar eru ásamt FH og ÍBV í 8.-10. sæti þrátt fyrir að vera með talsvert lakari markatölu.
Athugasemdir
banner