Nottingham Forest er í leit að vængmanni eftir að hafa selt Anthony Elanga til Newcastle United en það er útlit fyrir að arftaki hans sé fundinn.
Elanga var seldur til Newcastle fyrir 55 milljónir punda fyrir nokkrum dögum.
Svíinn var gríðarlega mikilvægur fyrir Forest á síðasta tímabili er liðið tryggði sér sæti í Evrópukeppni og verður erfitt að finna leikmann sem getur skilað svipuðu framlagi og hann.
Sky Sports segir að Forest hafi líklega fundið arftaka hans í svissneska leikmanninum Dan Ndoye, sem er á mála hjá Bologna á Ítalíu.
Ndoye skoraði sigurmarkið fyrir Bologna er liðið varð bikarmeistari á síðustu leiktíð og spilað stóra rullu í liðinu síðan hann kom frá Basel fyrir tveimur árum.
Napoli hefur leitt baráttuna um Ndoye í sumar en ekki enn náð samkomulagi við Bologna og er Forest tilbúið að 'stela' honum af deildarmeisturunum.
Talið er að Ndoye sé falur fyrir um það bil 28,5 milljónir punda og er Ndoye sagður spenntur fyrir hugmyndinni að spila í ensku úrvalsdeildinni.
Ndoye, sem er 24 ára gamall, hefur komið að 15 mörkum í 62 leikjum sínum í Seríu A.
Athugasemdir