Fréttamenn hjá Sky Sports fóru yfir kaup Arsenal og Tottenham á tveimur nýjum leikmönnum í sumarglugganum, þeim Noni Madueke og Mohammed Kudus sem flytjast báðir um set innan Lundúna.
Madueke kemur til Arsenal frá nágrönnunum í Chelsea rétt eins og Kudus fer til Tottenham frá nágrönnum þeirra í West Ham.
Arsenal og Tottenham borga svipað verð fyrir þessa leikmenn sem spila svipaðar stöður á vellinum og eru á svipuðum aldri, en það er þó nokkur munur á þeim.
Þegar horft er til síðustu leiktíðar þá skoraði Madueke meira heldur en Kudus og skapaði fleiri færi. Stærsti munurinn á leikmönnunum var þó varnargleðin og baráttuandinn í Kudus, sem vann tvöfalt fleiri einvígi heldur en Madueke.
Madueke er hugsaður sem varamaður fyrir Bukayo Saka á hægri kanti, en hann gæti endað á að veita Gabriel Martinelli samkeppni um byrjunarliðssætið vinstra megin.
Madueke er í fríi þessa dagana og mun byrja að æfa með leikmannahópi Arsenal snemma í ágúst. Hann kemur seinna til baka úr fríi eftir að hafa keppt á HM félagsliða í sumar þar sem liðsfélagar hans í Chelsea urðu heimsmeistarar.
Andrea Berta, yfirmaður fótboltamála hjá Arsenal, hefur verið hrifinn af Madueke á síðustu árum útaf því að hann er ungur leikmaður sem getur spilað mjög vel á báðum köntum. Það er eiginleiki sem gæti komið sér mjög vel fyrir Arsenal.
Athugasemdir