Guehi til sölu - Everton hafnaði fyrirspurnum í Branthwaite - Wharton falur fyrir 70 milljónir
banner
   lau 18. október 2025 10:45
Brynjar Ingi Erluson
Glasner: Guehi fer á næsta ári
Mynd: EPA
Oliver Glasner, stjóri Crystal Palace, staðfesti á blaðamannafundi í gær að Marc Guehi, fyrirliði liðsins, muni yfirgefa félagið á næsta ári.

Þessar fréttir eru sennilega verst geymda leyndarmál þeirra Palace-manna en það hefur lengi verið vitað að Guehi ætlaði sér að fara þegar samningur hans rennur út á næsta ári.

Hann var nálægt því að ganga í raðir Liverpool undir lok sumargluggans, en Steve Parish, stjórnarformaður Palace, hætti við söluna á elleftu stundu.

Guehi, sem er 25 ára gamall, má byrja að ræða við erlend félög um áramótin, en samkeppnin verður gríðarleg um enska landsliðsmanninn. Liverpool er ekki lengur talið leiða kapphlaupið.

„Ég held að Marc hafi þegar tjáð okkur að hann vilji ekki framlengja samninginn, þannig hann fer á næsta ári. Félagið vildi halda honum og buðu honum nýjan samning, en hann sagðist vilja gera eitthvað annað. Það er bara eðlilegt.“

„En nú er stóra spurningin hvernig við munum eiga við þessa stöðu. Hvað þarf að gera til þess klára næsta skref? Þetta eru málin sem við erum að ræða,“
sagði Glasner.

Það hefur komið fram að Palace sé mögulega reiðubúið til að selja Guehi í janúarglugganum. Bayern München, Tottenham, Barcelona og Real Madrid eru að berjast um undirskrift hans ásamt Liverpool, en fleiri félög gætu blandað sér í baráttuna þegar nær dregur opnun vetrargluggans.
Athugasemdir
banner
banner