Guehi til sölu - Everton hafnaði fyrirspurnum í Branthwaite - Wharton falur fyrir 70 milljónir
banner
   lau 18. október 2025 09:18
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Besti leikmaðurinn líklega að yfirgefa Þór/KA
Kvenaboltinn
Kimberley átti gott tímabil með Þór/KA.
Kimberley átti gott tímabil með Þór/KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sonja Björg er á leið í Val.
Sonja Björg er á leið í Val.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Þær Kimberley Dóra Hjálmarsdóttir og Sonja Björg Sigurðardóttir eru, samkvæmt heimildum Fótbolta.net, að yfirgefa Þór/KA og semja við félög á höfuðborgarsvæðinu.

Kimberley var fastakona í byrjunarliði Þórs/KA á tímabilins, spilaði 90 mínutur í öllum leikjunum og skoraði þrjú mörk. Hún er miðjumaður, fædd árið 2005 og var á lokahófi félagsins valin besti leikmaður liðsins.

Þrátt fyrir ungan aldur var þetta hennar fimmta tímabil í meistaraflokki. Hún á að baki nítján leiki fyrir yngri landsliðin og þar af einn fyrir U23 landsliðið. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er hún að ganga í raðir FH.

Uppfært 15:40: Fótbolta.net hefur borist ábending um að fjöldi félaga vilji fá Kimberley í sínar raðir og hún sé ekki búin að semja við neitt þeirra á þessum tímapunkti.

Sonja Björg er stór og stæðilegur framherji sem er fædd árið 2006. Hún kom við sögu í sextán leikjum, skoraði þrjú mörk og var í byrjunarliðinu í þeim flestum.

Hún á að baki fimm leiki fyrir yngri landsliðin og er samkvæmt heimildum Fótbolta.net að ganga í raðir Vals.

Kimberley var einu sinni valin í sterkasta lið umferðarinnar í sumar og Sonja Björg tvisvar sinnum.

Þór/KA endaði í 7. sæti Bestu deildarinnar á tímabilinu og ljóst að nýr þjálfari tekur við liðinu þar sem Jóhann Kristinn Gunnarsson tók við Þrótti í vikunni.
Athugasemdir
banner