Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 20. janúar 2021 22:11
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
England: Glæsimark Pogba fleytti Man Utd aftur á toppinn
Pogba er búinn að vera mjög flottur að undanförnu.
Pogba er búinn að vera mjög flottur að undanförnu.
Mynd: Getty Images
Fulham 1 - 2 Manchester Utd
1-0 Ademola Lookman ('5 )
1-1 Edinson Cavani ('21 )
1-2 Paul Pogba ('65 )

Manchester United endurheimti toppsætið í ensku úrvalsdeildinni með sigri á Fulham á útivelli í kvöld.

Fulham byrjaði leikinn af miklum krafti og þeir komust yfir á fimmtu mínútu. Þar var að verki Ademola Lookman eftir sendingu inn fyrir vörnina. Aaron Wan-Bissaka gerði Lookman réttstæðan og Fulham tók forystuna.

Stuttu eftir markið vildi Man Utd fá vítaspyrnu en ekkert var dæmt. United lét það ekki pirra sig of mikið því Edinson Cavani jafnaði metin á 21. mínútu. Alphonse Areola, markvörður Fulham, missti fyrirgjöf Bruno Fernandes frá sér og Cavani nýtti sér það.

Staðan var 1-1 í hálfleik og í seinni hálfleiknum tókst Paul Pogba að skora glæsilegt mark með vinstri fæti. Hann ákvað að skjóta nokkuð langt fyrir utan teig og boltinn söng í netinu. Frábært mark hjá franska landsliðsmanninum sem hefur verið að spila vel að undanförnu.

Fulham hótaði mjög að jafna metin á nýjan leik en United tókst að halda út og langa sigrinum. Eric Bailly var ekki fjarri því að skora sjálfsmark seint í uppbótartímanum en boltinn fór rétt fram hjá markinu.

Man Utd var mikið meira með boltann í leiknum en Fulham fékk sín færi og spilaði nokkuð vel í leiknum. Þeir hefðu hæglega getað jafnað metin en það er Man Utd sem tekur stigin þrjú. Man Utd endurheimtir toppsætið af nágrönnum sínum í City sem fóru á toppinn fyrr í kvöld. City á þó leik inni og með sigri í þeim leik fara þeir á toppinn. Það munar tveimur stigum á liðunum. Fulham er í 18. sæti, fallsæti, með 12 stig.

Önnur úrslit í dag:
England: Manchester City á toppinn eftir fjörugan leik
Athugasemdir
banner
banner