þri 20. febrúar 2024 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Conte lítur á Bayern sem draumafélagið
Ítalinn Antonio Conte er sagður spenntur fyrir þeirri hugmynd að gerast næsti stjóri þýska stórveldisins Bayern München.

Það er krísuástand hjá Bayern þessa dagana eftir þriðja tap liðsins í röð. á sunnudag tapaði liðið gegn Bochum í þýsku úrvalsdeildinni, 3-2. Þýskalandsmeistararnir eru núna átta stigum eftir toppliði Bayer Leverkusen sem virðist vera óstöðvandi.

Það er óhætt að segja að Thomas Tuchel sé valtur í sessi en starf hans hangir á bláþræði.

Samkvæmt þýska fjölmiðlinum Bild, þá er Conte mjög áhugasamur um Bayern og lítur á það sem draumfélag sitt á þessum tímapunkti. Hann er búinn að vinna Englandsmeistaratitil með Chelsea, Ítalíumeistaratitil með Juventus og lítur á það sem spennandi tilhugsun að vinna Þýskalandsmeistaratitil með Bayern.

Conte hefur verið atvinnulaus í tæpt ár núna, frá því hann yfirgaf Tottenham.
Athugasemdir
banner
banner