fös 20. mars 2020 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Lukaku var næstum farinn til Juve í fyrra
Lukaku er kominn með 23 mörk í 35 leikjum á tímabilinu.
Lukaku er kominn með 23 mörk í 35 leikjum á tímabilinu.
Mynd: Getty Images
Romelu Lukaku hefur verið að gera góða hluti frá komu sinni til Inter, sem hefur aðeins nýlega byrjað að tapa stigum í titilbaráttunni.

Lukaku skipti yfir í ítalska boltann síðasta sumar eftir tvö ár hjá Manchester United. Inter greiddi metfé fyrir belgíska sóknarmanninn.

Lukaku fór í viðtal á YouTube rás Ian Wright og svaraði spurningum frá sóknarmanninum fyrrverandi sem er goðsögn hjá Arsenal og Crystal Palace. Þar sagðist hann hafa verið nálægt því að ganga í raðir Juventus og að Ole Gunnar Solskjær hafi viljað halda honum hjá félaginu.

„Ég var mjög nálægt því að ganga í raðir Juve en þegar möguleikinn að fara til Inter kviknaði þá vissi ég strax hvað ég vildi. Ég hélt upp á félagið þegar ég var yngri og var mjög hrifinn af mönnu á borð við Christian Vieri, Adriano og Ronaldo," sagði Lukaku.

„Þjálfarinn (Antonio Conte) reyndi að fá mig til Juventus og Chelsea á sínum tíma. Ég vildi prófa að spila fyrir hann."

Lukaku skoraði 15 mörk í 45 leikjum á sínu seinna tímabili í Manchester og segist hafa þurft að yfirgefa félagið.

„Hver sem er getur lent í því að eiga slæmt ár en ég fann að ég hafði ekki orku til að vera áfram hjá félaginu. Þetta var erfið staða.

„Ole vildi halda mér en ég sagði honum að þetta væri búið, ég gæti ekki verið þarna lengur. Ég er honum þakklátur fyrir hjálpina og stuðninginn sem hann sýndi."

Athugasemdir
banner
banner
banner