Íslendingalið Esbjerg tapaði sínum öðrum leik á tímabilinu í dönsku B-deildinni í kvöld.
Liðið tók á móti Hvidovre og komust gestirnir yfir á 28. mínútu. Í byrjun seinni hálfleiksins skoraði svo Tobias Thomsen, fyrrum sóknarmaður KR og Vals, annað mark Hvidovre.
Tobias yfirgaf KR í sumar þar sem hann vildi komast aftur heim til Danmerkur. Tobias er búinn að skora fimm mörk í sjö leikjum í dönsku B-deildinni á tímabilinu.
Andri Rúnar Bjarnason byrjaði á bekknum fyrir Esbjerg en hann kom inn á sem varamaður í leiknum.
Ólafur Kristjánsson er þjálfari Esbjerg sem er í fjórða sæti B-deildarinnar með 14 stig eftir átta leiki.
Athugasemdir