Chiesa í skiptum fyrir Greenwood? - David til Chelsea - Buðu Palace að fá Olise aftur á láni - Slot skoðar Minteh - Varane til Miami
   mið 20. nóvember 2013 20:00
Gísli Baldur Gíslason
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Hetjutár
Gísli Baldur Gíslason
Gísli Baldur Gíslason
Eiður Smári Guðjohnsen eftir viðtalið við Hauk Harðarson á RÚV í gær
Eiður Smári Guðjohnsen eftir viðtalið við Hauk Harðarson á RÚV í gær
Mynd: RÚV
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég veit ekki um neitt, í daglegri tilveru okkar mannanna, sem getur á sannan hátt, hreyft við fólki líkt og íþróttir gera. Kvikmyndagerðarmenn og rithöfundar gætu aldrei valdið þeim snörpu hughrifum með orðum sínum, sem raunveruleg atvik keppnisíþróttanna gera. Þar sem afreksfólk berst við keppinautinn - eða sjálft sig. Leggur allt í sölurnar, til þess eins að hafa betur. Gleði, kapp, hatur, sorg, þakklæti og trú. Tilfinningarnar eru sannar.

Þessar tilfinningar eru vitaskuld hluti af okkar daglega lífi. En í íþróttum þá sveiflast þær til líkt og lauf í stormi. Og við sveiflumst með. Við stillum okkur í lið. Við fylkjumst bakvið átrúnaðargoð. Þannig verðum við, sem sitjum í stúkunni, hluti af leiknum. Og þegar mikið er í húfi, þá deyfast skilin milli afþreyingar og raunveruleika.

Á síðustu dögum fönguðu tveir knattspyrnuleikir - 180 mínútur af saklausum boltaleik - huga og hjörtu allra landsmanna. Hið sjaldgæfa gerðist. Þjóðin okkar sameinaðist. Eftir hetjulega baráttu á Laugardalsvelli héldum við utan með trú í farteskinu. Kannski gæti hið ólíklega gerst.

En við lutum í lægra haldi og Golíat hélt velli. Ævintýrinu sem tókst að lífga upp á skammdegið, var lokið. Tilfinningar vonar urðu að sorg.

Leikvöllurinn skapar hetjur. Í kvöld kvöddum við eina þeirra. Eiður Smári Guðjohnsen er trúlega einn fremsti íþróttamaður sem þjóð okkar hefur alið. Á farsælum ferli náði hann árangri sem enginn annar landi hans hefur náð hvorki fyrr né síðar. Hann hefur fagnað bæði Englands- og Evrópumeistaratitlum, spilað í bestu liðum heims og við bestu leikmenn heims.

En í kvöld fagnaði hann ekki. Hetjan birtist okkur sem brotinn maður. Eftir að blaðamaður hafði spurt hann nokkurra spurninga um leik kvöldsins var loks komið að stóru stundinni: Hvað nú?

Í brjóstum okkar allra býr eldmóður sem fær að blossa á vettvangi íþróttanna. Þess vegna eru íþróttir hluti af lífi okkar allra. Einn leikur, mót eða jafnvel einstök atvik, geta kennt okkur ýmislegt um lífið. Því fátt er jafn ósvikið og tilfinngarnar sem umkringja leikinn.

Eftir stutta stund breyttist kokhrausti töffarinn, átrúnaðargoð heillar kynslóðar, í sorgmæddan mann. Tilfinningarnar báru hann ofurliði og svarið lét á sér standa vegna þess. Sekúndurnar liðu hægt og þjóðin þagði með.

Hershöfðinginn játaði sig loks sigraðan. Honum hafði ekki tekist að leiða þjóð sína á þann stað sem hann hafði augljóslega látið sig dreyma um. Og ef til vill áttaði hann sig á því á lokasprettinum að fjarlægi draumurinn var kannski aldrei svo fjarlægur eftir allt saman. Þegar hann horfðist í augu við þessar staðreyndir, þá táraðist hann.

Einlægari stund er vandfundin.

Eiður Smári Guðjohnsen hefur verið merkisberi íslenskrar knattspyrnu undanfarna áratugi. Það var því við hæfi að þessi stærsta stund íslenskrar knattspyrnu yrðu hans tímamót. Við Íslendingar munum aldrei gleyma framlagi Eiðs Smára til knattspyrnunnar og við munum aldrei gleyma þögninni löngu þegar hetjan varð að goðsögn.

Gísli Baldur Gíslason
19. nóvember 2013
Athugasemdir
banner
banner