Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   þri 21. mars 2023 11:57
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Gríðarlegt áfall fyrir FH að þetta mál sé komið upp á yfirborðið"
Morten Beck var á mála hjá FH á árunum 2019-2022. Hann telur sig eiga inni stóra upphæð frá félaginu.
Morten Beck var á mála hjá FH á árunum 2019-2022. Hann telur sig eiga inni stóra upphæð frá félaginu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli Viðar Björnsson.
Atli Viðar Björnsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Heimir kominn aftur í FH.
Heimir kominn aftur í FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þeir Máni Pétursson og Atli Viðar Björnsson, sem hafa verið sérfræðingar í kringum efstu deild karla undanfarin ár, fóru yfir málin í hlaðvarpsþættinum Enn einn fótboltaþátturinn.

Rætt var um liðin í Bestu deildinni og var m.a. rætt um FH. Atli Viðar er fyrrum leikmaður FH og markahæsti leikmaður félagsins í efstu deild.

„Hvað segiru með FH? Þetta leit vel út hjá FH, allt að gerast en svo kemur leikur á móti ÍBV og það er 5-1 tap. Hvað er í gangi?" spurði Máni og nefndi málið sem hangir yfir FH-ingum, fjórtán milljóna króna krafan frá Morten Beck.

„Það sem mér finnst mesta áfallið við að þetta mál sé að koma upp á yfirborðið núna er að stemningin í kringum FH var búin að vera svo góð. Það voru góðir hlutir að gerast og búið að snúa við þessum vonda spíral sem var í gangi í kringum félagið. Það var blásið í alla mögulega herlúðra þegar Heimir Guðjónsson var kynntur til leiks og nokkrum vikum seinna kemur Aron Pálmars í ennþá flottari kynningu. Og síðustu leikirnir í fyrra, þegar FH var í verulegum vandræðum, þá stóð fólk á bakvið félagið. Það sem hefur verið í gangi utan vallar í vetur hefur mér fundist vera gott; markaðslega á samfélagsmiðlum, viðburðir og annað slíkt sem hafa gengið vel. Mér hefur fundist vera góður bragur í félaginu, eitthvað sem mér fannst ekki alltaf síðustu árin mín þarna. Að því leytinu til finnst mér gríðarlegt áfall að þetta mál sé komið upp á yfirborðið og komið í umræðuna, sé að hafa þessi áhrif."

Vonar að enginn tengdur FH geri meiri væntingar en Evrópubaráttu
„Fótboltalega séð... í þessum leik á móti ÍBV kviknuðu rosalega margar viðvörunarbjöllur. Leikmenn sem ég hafði mætur á og mér fannst búnir að vera vaxandi og flottir fyrri part vetrar voru ótrúlega slakir. Þeir sýndu karaktereinkenni sem ég hef áhyggjur af. Í þessum leik voru þeir Björn Daníel og Eggert meiddir. Þeir eru gríðarlega mikilvægir fyrir liðið og þrýsta þeim eins langt og þeir komast. Mér finnst vanta x-faktor í FH-liðið. Þetta er orðið ágætlega þéttur hópur af fínum spilurum, en mér finnst vanta 'match-winner/x-faktor', einhvern sem getur stigið upp og tekið liðið á herðarnar þegar það er í einhverjum öldudal," sagði Atli Viðar.

Máni spurði Atla hvar hann myndi setja FH-liðið í deildinni. Atli var í þættinum að vinna með þriggja liða flokka; 1-3, 4-6, 7-9 og 10-12.

„Ég er með FH í 7-9," sagði Atli Viðar.

„Ég er að setja FH í 4-6, ég held að Heimir sé kominn með mann sér til aðstoðar (Sigurvin Ólafsson) sem hentar honum mjög vel - í fyrsta skipti í langan tíma. Þá er ég ekki að setja út á gæjana sem voru með Heimi síðast, að þeir séu eitthvað lélegir, þeir voru bara ekki gæjar sem hentuðu Heimi. Ég held að Heimir sé núna kominn inná svæði sem hentar honum og Heimir veit að þarna, öfugt við Val, mun fólkið standa með honum. Heimir veit að fólkið mun standa með uppbyggingunni og veit að hann verður ekki rekinn. Hann er í fyrsta skipti að fara í mót þar sem er ekki pressa á honum, eina pressan er að gera betur en á síðasta tímabili" sagði Máni.

„Ég er sammála að maður sér á Heimi að honum líður vel að vera kominn aftur í FH. Pressan er samt sem áður á honum að búa til nýtt lið. Þetta er kannski í fyrsta skipti sem Heimir stendur frammi fyrir því að búa til nýtt lið sem ekki er búist við að sé í titilbaráttu. Ég held að væntingarnar hljóti að vera í topp 6, vera í efri hlutanum þegar deildinni er skipt upp. Þegar þú ert þar þá er orðið stutt upp í Evrópusætið. Ég held að það séu villtustu draumarnir. Ég ætla rétt að vona að það sé enginn sem tengist FH liðinu eða í liðinu sem er að velta sér upp úr einhverju stærra heldur en það," sagði Atli Viðar.

Sjá einnig:
Morten Beck: Mér finnst þetta algjör synd

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner