lau 21. maí 2022 18:11
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Tvö rauð og dramatík í Eyjum - Stjarnan lagði KA
Árni Snær Ólafsson varði víti í uppbótartíma
Árni Snær Ólafsson varði víti í uppbótartíma
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hallur Hansson skoraði fyrir KR
Hallur Hansson skoraði fyrir KR
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísak Andri Sigurgeirsson skoraði frábært mark fyrir Stjörnuna
Ísak Andri Sigurgeirsson skoraði frábært mark fyrir Stjörnuna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan lagði KA, 2-0, er liðin mættust á Dalvíkurvelli í Bestu deild karla í kvöld en á sama tíma gerðu ÍBV og ÍA markalaust jafntefli á Hásteinsvelli þar sem Árni Snær Ólafsson varði vítaspyrnu í uppbótartíma.

Stjarnan lagði KA, 2-0, á Dalvíkurvelli. Það tók Stjörnumenn rúmar tuttugu mínútur að ná forystunni en það var Ísak Andri Sigurgeirsson sem gerði það með stórglæsilegu skoti úr teignum í slá og inn.

Stjörnumenn leiddu 1-0 í hálfleik og var það nokkuð sanngjarnt miðað við gang leiksins.

Emil Atlason kom gestunum í 2-0 þegar tuttugu mínútur lifðu leiks en hann fékk sendingu inn fyrir vörn KA og lagði hann snyrtilega í netið.

Heimamenn reyndu að komast inn í leikinn undir lokin en án árangurs og Stjarnan fór með sigur af hólmi, 2-0. Stjarnan er í 3. sæti með 14 stig, tveimur stigum á eftir KA sem er í öðru sæti.

Hnifjafnt á Meistaravöllum

KR og Leiknir R. gerðu 1-1 jafntefli á Meistaravöllum. Færeyski landsliðsmaðurinn Hallur Hansson kom KR-ingum yfir á 10. mínútu. Aron Kristófer Lárusson fékk boltann vinstra megin, kom með sendingu fyrir og tæklaði Hallur boltann í netið.

Þorsteinn Már Ragnarsson kom boltanum í netið stuttu síðar eftir fyrirgjöf frá Kennie Chopart en markið var dæmt af vegna rangstöðu og var þetta spurning um sentimetra.

Leiknismenn jöfnuðu á 54. mínútu. Róbert Hauksson, sem hafði verið líflegur í leiknum, átti skot að marki sem Beitir Ólafsson missti fyrir Mikkel Dahl og náði hann að klára færið.

Gestirnir voru nálægt því að stela sigrinum á 80. mínútu þegar KR-ingar ætluðu að senda til baka á Beiti. Mikkel kom boltanum fyrir á Róbert sem var að gera sig kláran í að koma Leiknismönnum yfir en Aron Kristófer bjargaði frábærlega.

Kennie Chopart átti skot rétt yfir áður en flautað var til leiksloka og lokatölur 1-1. Þetta stig gerir ekki mikið fyrir liðin en KR er með 11 stig í 5. sæti en Leiknir áfram á botninum með 3 stig.

Tvö rauð og dramatík í lokin

ÍBV og ÍA gerðu markalaust jafntefli á Hásteinsvelli en þar var dramatíkin í hámarki.

Hættulegasta færi fyrri hálfleiksins átti Eyþór Wöhler er hann komst einn gegn Guðjóni Orra Sigurjónssyni en markvörðurinn gerði sig stóran og varði vel frá honum.

Á 67. mínútu misstu Eyjamenn Elvis Bwomono af velli er hann fékk sitt seinna gula spjald og þar með rautt. Það var síðan jafnt í liðum þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum en Jón Gísli Eyland Gíslason fékk að líta sitt seinna gula og rautt.

Eyjamenn voru nálægt því að stela sigrinum nokkrum mínútum síðar en Skagamenn björguðu tvívegis á línu og héldu sér vel inn í leiknum.

Í uppbótartíma braut Aron Bjarki Jósepsson af sér innan vítateigs og fór Andri Rúnar Bjarnason á punktinn. Árni Snær Ólafsson varði frá honum í slá og náði í sterkt stig fyrir Skagamenn. Lokatölur 0-0 og Skagamenn í 8. sæti með 6 stig en Eyjamenn í næst neðsta með 3 stig.

Úrslit og markaskorarar:

KR 1 - 1 Leiknir R.
1-0 Hallur Hansson ('10 )
1-1 Mikkel Dahl ('54 )
Lestu um leikinn

KA 0 - 2 Stjarnan
0-1 Ísak Andri Sigurgeirsson ('22 )
0-2 Emil Atlason ('70 )
Rautt spjald: Steingrímur Örn Eiðsson, KA ('71) Lestu um leikinn

ÍBV 0 - 0 ÍA
Rautt spjald: ,Elvis Okello Bwomono, ÍBV ('67)Jón Gísli Eyland Gíslason, ÍA ('85) Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner