Man City gerir tilboð í Olmo - Barcelona reynir líka að fá spænska landsliðsmanninn - Wan-Bissaka vill ekki fara til West Ham
   þri 21. maí 2024 21:23
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Jónatan Ingi afgreiddi HK - Breiðablik lagði Stjörnuna að velli
Blikar fagna gegn Stjörnunni
Blikar fagna gegn Stjörnunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Framarar gerðu jafntefli við ÍA
Framarar gerðu jafntefli við ÍA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor Jónsson gerði mark Skagamanna
Viktor Jónsson gerði mark Skagamanna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Patrik Johannesen skoraði fyrir Blika
Patrik Johannesen skoraði fyrir Blika
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jónatan Ingi Jónsson var hetja Vals
Jónatan Ingi Jónsson var hetja Vals
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Toppbaráttulið Breiðabliks og Vals unnu bæði í 7. umferð Bestu deildar karla í kvöld. Fram og ÍA gerðu á meðan 1-1 jafntefli á Lambhagavellinum í Úlfarsárdal.

Skagamenn fengu fyrsta hættulega færi leiksins. Hinrik Harðarson slapp einn í gegn á móti Ólafi Íshólm Ólafssyni en þrumaði boltanum beint á Ólaf. Hefði átt að gera betur í þessari stöðu.

Magnús Þórðarson átti skemmtilegt skot á 21. mínútu sem hafnaði ofan á þverslánni.

Færin voru á báða bóga í fyrri hálfleiknum. Rúnar Már Sigurjónsson átti viðstöðulaust skot í fjærhornið en Ólafur gerði vel í að verja frá fyrrum atvinnumanninum.

Á lokamínútum fyrri hálfleiks gerði Marko Vardic, leikmaður ÍA, skelfileg mistök er hann sendi boltann beint á Guðmund Magnússon, en hann og Tryggvi Snær Geirsson spiluðu sín á milli áður en Guðmundur lét vaða úr góðu færi en setti boltann framhjá markinu.

Rétt fyrir lokaflautið reyndi Johannes Vall fyrirgjöf frá vinstri en eitthvað misreiknaði hann sendinguna sem endaði næstum því í netinu, en boltinn small af nærstönginni og út í teiginn.

Framarar komu sterkari inn í síðari hálfleikinn. Aftur kom Guðmundur sér í dauðafæri, en setti boltann beint á Árna Marinó Einarsson í markinu.

Fred kom sér næst í ákjósanlegt færi á fjærstönginni en setti boltann framhjá áður en Viktor Jónsson skallaði boltann í slá hinum megin á vellinum.

Það dró loks til tíðinda á 63. mínútu leiksins. Magnús tóks innkastið á Fred, sem geystist inn í teiginn, setti boltann meðfram grasinu og á Guðmund sem skoraði.

Framarar voru nálægt því að tvöfalda forystuna tíu mínútum síðar er skot Alex Freys Elíssonar fór af Oliver Stefánssyni og í þverslá. Skagamenn stálheppnir að setja boltann ekki í eigið net þarna.

Aðeins rúmum tveimur mínútum eftir að Fram var næstum því komið í 2-0 jöfnuðu Skagamenn. Guðfinnur Þór Leósson kom inn af bekknum í síðari hálfleiknum, átti þessa glæsilegu sendingu á hausinn á Viktori sem stangaði boltann í netið. Fljótt að breytast í Úlfarsárdal.

Á lokasekúndum leiksins fékk ungstirnið Viktor Bjarki Daðason dauðafæri til þess að tryggja Fram sigurinn. Alex Freyr keyrði upp hægri vænginn, kom með boltann fyrir á Viktor en Árni Marinó með geggjaða vörslu til að tryggja nýliðunum stig.

Framarar eru í 4. sæti með 12 stig en ÍA í 6. sæti með 10 stig.

Góður sigur Blika

Breiðablik marði Stjörnuna, 2-1, á Kópavogsvelli.

Blikar voru ekki lengi að taka forystuna í Kópavogi. Kristinn Steindórsson var sendur í gegn en Árni Snær Ólafsson sá við honum í markinu. Boltinn rataði út í teiginn og á Patrik Johannesen sem skoraði gott mark.

Stjörnumenn fengu fínustu færi til þess að skora og Blikar sömuleiðis en það voru heimamenn sem bættu við forystuna undir lok hálfleiksins.

Höskuldur Gunnlaugsson átti laglegan bolta fyrir markið og ætlaði Patrik að klippa boltann í netið en það var lán í óláni að skot hans varð að góðri sendingu á Jason Daða Svanþórsson sem skoraði annað mark Blika.

Stjörnumenn svöruðu strax er Damir Muminovic braut á Örvari Eggertssyni innan teigs. Emil Atlason skoraði úr vítinu og staðan í hálfleik 2-1 fyrir Blikum.

Í byrjun síðari hálfleiks gátu Blikar komið sér aftur í þægilega forystu er Viktor Karl Einarsson kom með glæsilega sendingu inn á Patrik, en Færeyingurinn skóflaði boltanum yfir.

Blikarnir fengu mörg færi til að ganga frá leiknum en sættu sig á endanum við 2-1 sigur. Það var lítið að gerast sóknarlega hjá heimamönnum síðustu mínúturnar og fór því liðið í það að halda fengnum hlut.

Blikar eru í öðru sæti með 15 stig en Stjarnan í 8. sæti með 10 stig.

Jónatan Ingi afgreiddi HK

Valur lagði HK að velli, 2-1, í Kórnum í kvöld þar sem Jónatan Ingi Jónsson gerði bæði mörk gestanna.

HK-ingar voru líflegir fyrstu tuttugu mínútur leiksins. Arnþór Ari Atlason átti skalla á markið eftir laglega hælsendingu frá Atla Hrafni Andrasyni en Frederik Schram varði.

Valsarar tóku við sér eftir góðan kafla frá heimamönnum. Arnar Freyr Ólafsson sá við Aroni Jóhannssyni áður en Adam Ægir Pálsson skaut boltanum framhjá markinu.

Gestirnir fengu hættulegri færi í fyrri hálfleiknum en Arnar var öruggur í markinu. HK-ingar áttu sín augnablik en í hálfleik var staðan markalaus.

Leikmenn Vals komu ákveðnir inn í síðari hálfleikinn og komust í forystu þegar tæpar átta mínútur voru liðnar. Aron Jó sendi á Tryggva Hrafn Haraldsson sem kom boltanum fyrir á Jónatan Inga Jónsson sem skoraði. Einfalt og gott.

Ellefu mínútum síðar skoruðu HK-ingar eitt furðulegasta mark tímabilsins til þessa. Frederik Schram ætlaði að kom boltanum fram völlinn. Hann stóð framarlega en hreinsun hans fór í hausinn á Arnþór Ara, sem var einhverjum 35 metrum frá marki, og í netið. Svakalegt mark.

Valur ætlaði ekki að fara tapa stigum í Kórnum og gerðu allt til að loka leiknum. Adam Ægir átti skot í stöng þegar stundarfjórðungur var eftir, en aðeins fjórum mínútum síðar kom sigurmarkið.

Aftur var það Jónatan Ingi. Hann fékk skoppandi bolta í teignum og klíndi honum í hornið.

Tryggvi Hrafn gat bætt við þriðja markinu úr aukaspyrnu en Arnar Freyr sá við honum með glæsilegri vörslu.

Valsmenn náðu í sterkan 2-1 sigur í Kórnum. Valur er með 14 stig í 3. sæti deildarinnar en HK í 9. sæti með 7 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Breiðablik 2 - 1 Stjarnan
1-0 Patrik Johannesen ('5 )
2-0 Jason Daði Svanþórsson ('43 )
2-1 Emil Atlason ('45 , víti)
Lestu um leikinn

Fram 1 - 1 ÍA
1-0 Guðmundur Magnússon ('65 )
1-1 Viktor Jónsson ('76 )
Lestu um leikinn

HK 1 - 2 Valur
0-1 Jónatan Ingi Jónsson ('53 )
1-1 Arnþór Ari Atlason ('64 )
1-2 Jónatan Ingi Jónsson ('79 )
Lestu um leikinn
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 15 10 3 2 34 - 15 +19 33
2.    Breiðablik 15 9 3 3 33 - 19 +14 30
3.    Valur 14 8 4 2 36 - 18 +18 28
4.    FH 15 7 4 4 27 - 24 +3 25
5.    ÍA 15 7 3 5 33 - 21 +12 24
6.    Stjarnan 15 6 2 7 27 - 29 -2 20
7.    Fram 14 5 4 5 20 - 20 0 19
8.    KA 15 5 3 7 23 - 29 -6 18
9.    KR 15 3 5 7 25 - 30 -5 14
10.    HK 15 4 2 9 17 - 35 -18 14
11.    Vestri 15 3 3 9 18 - 36 -18 12
12.    Fylkir 15 3 2 10 21 - 38 -17 11
Athugasemdir
banner
banner