Ítalski miðvörðurinn Leonardo Bonucci er alvarlega að íhuga að leggja skóna á hilluna eftir þetta tímabil.
Bonucci, sem er 37 ára gamall, er á mála hjá Fenerbahce í Tyrklandi en samningur hans rennur út eftir tímabilið.
Ítalinn var með bestu varnarmönnum heims er hann var á mála hjá Juventus. Þar vann hann deildina átta sinnum, bikarinn fjórum sinnum og komst þá tvisvar í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu.
Tvisvar var hann í liði ársins hjá FIFPRO og þá í liði ársins í Meistaradeild Evrópu 2016-2017. Hann vann þá EM 2020 með Ítalíu.
Á síðasta ári yfirgaf hann Ítalíu og samdi við Union Berlín í Þýskalandi, en það ævintýri entist ekki lengi. Hann yfirgaf félagið í byrjun ársins og gekk í raðir Fenerbahce.
Samningur hans þar rennur út eftir tímabilið og íhugar hann nú að leggja skóna á hilluna, en þetta segir ítalski blaðamaðurinn Matteo Moretto.
Hann á enn möguleika á að vinna tyrknesku deildina með Fenerbahce en liðið er þremur stigum á eftir toppliði Galatasaray fyrir lokaumferðina. Fenerbahce mætir Istanbulspor á heimavelli á meðan Galatasaray heimsækir Konyaspor.
Athugasemdir