Spænski framherjinn Alvaro Morata er mættur til Torínó þar sem hann mun gangast undir læknisskoðun hjá Ítalíumeisturum Juventus áður en gengur til liðs við félagið á láni frá Atlético Madríd.
Juventus hefur verið í leit að framherja síðan félagið rifti samningnum við Gonzalo Higuain á dögunum en hann samdi við Inter Miami í MLS-deildinni.
Edinson Cavani, Edin Dzeko og Luis Suarez komu vel til greina en Juventus hefur ákveðið að veðja á mann sem gerði vel með liðinu frá 2014 til 2016.
Juventus keypti Morata frá Real Madrid árið 2014 á 20 milljónir evra og gerði hann 27 mörk í 93 leikjum. Madrídingar keyptu hann til baka árið 2016 á 30 milljónir evra.
Hann gekk til liðs við Chelsea árið 2017 en tókst ekki að festa sig í sessi og var á endanum lánaður til Atlético á eins og hálfs árs samning. Morata gerði vel á þessum tíma og fór það svo að Atlético keypti hann á 58 milljón punda.
Samkvæmt ítölsku miðlunum er Morata nú nálægt því að ganga í raðir Juventus. Hann verður lánaður út leiktíðina og á Juventus þá möguleika á að kaupa hann fyrir 45 milljónir evra.
Atlético er þá að ganga frá samningum við Luis Suarez en hann kemur á frjálsri sölu eftir að Suarez komst að samkomulagi um að rfita samningnum við Barcelona.
Athugasemdir