
„Við erum í fínum séns á að fara upp beint um daginn og góðum séns á að komast á Laugardalsvöll í þessu einvígi, en það tókst ekki," sagði Sigurvin Ólafsson þjálfari Þróttar eftir tap fyrir HK í undanúrslitum umspilsins í Lengjudeildinni.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 2 - 3 HK
„Við erum auðvitað að fá á okkur svolítið mikið af mörkum. Ef ég skoða leikina sjálfa, þá fannst mér við spila mjög vel í þessum leik þar sem við töpum 4-3 en gerum bara mistök sem að kosta, en spilamennskan var frábær. Í dag var þetta kannski meira stress, við fáum á okkur gefins mark eftir tvær mínútur, sem drepur aðeins stemninguna og taktinn. Þurfum að fara upp stóra og bratta brekku strax í byrjun. Mér fannst við aðeins of lengi að bregðast við því en svo í seinni hálfleik fannst mér við komast í gang og erum sanngjarnt komnir inn í þennan leik þegar líður á," sagði Sigurvin.
HK fékk víti í upphafi leiks sem Þróttarar voru alls ekki ánægðir með.
„Þetta var bara rangur dómur og það er óheppilegt fyrir okkur. Mjög leiðinlegt í svona úrslitaleik að það sé tekin ákvörðun um að dæma víti á eitthvað sem er ekkert víti. Mér finnst það svona almennt í svona stórum leikjum að þú verður að vera alveg handviss þegar þú ætlar að dæma víti. Þetta er bara leikaraskapur og hann kemst upp með það," sagði Sigurvin.
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum fyrir ofan.