Zirkzee, Yoro og Branthwaite orðaðir við Man Utd - Arsenal mun framkvæma læknisfræðilegt mat á Neto
   mið 22. maí 2013 09:00
Fótbolti.net
Spá Fótbolta.net fyrir 1. deild kvenna: B-riðill
KR-ingum er spáð sigri í B-riðli
KR-ingum er spáð sigri í B-riðli
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Samkvæmt spánni endar Fjölnir í 2. sæti
Samkvæmt spánni endar Fjölnir í 2. sæti
Mynd: Björn Ingvarsson
Siggu Baxter og lærimeyjum hennar er spáð 3. sæti
Siggu Baxter og lærimeyjum hennar er spáð 3. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Anna Þórunn er komin heim til Grindavíkur sem spáð er 4. sæti
Anna Þórunn er komin heim til Grindavíkur sem spáð er 4. sæti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
5. sætið bíður Húsavíkurstúlkna ef spámennirnir hafa rétt fyrir sér
5. sætið bíður Húsavíkurstúlkna ef spámennirnir hafa rétt fyrir sér
Mynd: 640.is
Sindrastúlkur komu mörgum á óvart í fyrra. Hvað gera þær í ár?
Sindrastúlkur komu mörgum á óvart í fyrra. Hvað gera þær í ár?
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Á morgun verður flautað til leiks í B-riðli 1.deildar kvenna og því við hæfi að opinbera spá Fótbolta.nets fyrir riðilinn. Við fengum nokkra boltaspekinga til að spá fyrir um 1.deildina í sumar og var spáin fyrir A-riðilinn birt fyrir helgi. Eins og undanfarin ár er deildinni skipt upp í tvo riðla og tvö efstu lið úr hvorum riðli taka þátt í úrslitakeppni um tvö laus sæti í úrvalsdeild í haust.

Sérfræðingar Fótbolta.net eru sex talsins og þau röðuðu liðunum upp eftir því sem þau telja líklega lokastöðu eftir riðlakeppnirnar. Liðið í efsta sæti fær 10 stig, annað sætið 8 stig, 6 stig fyrir þriðja, 5 fyrir fjórða og svo koll af koll en liðinu sem spáð er 9.sæti fær ekkert stig. Athugið að spáin er fyrst og fremst til gamans gerð og hún var unnin fyrir lokadag félagaskiptagluggans. Þar fengu mörg liðanna liðsstyrk sem mun án efa hafa áhrif á lokastöðuna í riðlunum.

Sérfræðingarnir: Dúfa Dröfn Ásbjörnsdóttir, Hafliði Breiðfjörð, Jóhann Kristinn Gunnarsson, Magnús Már Einarsson, Theodór Sveinjónsson, Þorleifur Óskarsson.

Spáin:
KR 54 stig
Fjölnir 46 stig
Höttur 37 stig
Grindavík 30 stig
Völsungur 25 stig
Sindri 18 stig
Keflavík 15 stig
Fjarðabyggð 9 stig

Sérstakur álitsgjafi okkar í ár er Þorleifur Óskarsson, annar þjálfara Vals. Hann hefur verið viðriðinn 1.deildina undanfarin ár. Fyrst sem þjálfari Þróttar og síðar sem þjálfari Fjölnis. Sjáum hvað Þorleifur hefur að segja um liðin í A-riðli:

1. KR
KR-ingar stóðu sig mjög vel í Lengjubikar og skákuðu mörgum Pepsi-deildar liðum. Það verður mjög áhugvert að sjá hvernig Björgvini Karli tekst til með liðið. Það er ekkert verið að spara í Vesturbænum og liðið hefur styrkt sig mikið að undanförnu. Til að mynda með þremur erlendum leikmönnum. Það er ljóst að KR-ingar ætla sér að komast strax aftur upp í Pepsi-deildina að ári

2. Fjölnir
Fjölnisliðið er reynslunni ríkari eftir að hafa beðið lægri hlut í úrslitakeppninni í fyrra. Þær hafa fengið reynsluboltann Sigurð Víðsson til að stjórna liðinu og hefur honum tvívegis tekist að koma liðum sínum upp um deild. Lið Fjölnis er skemmtileg blanda af reynsluboltum eins og markmanninum Sonný Láru og ungum og skemmtilegum stúlkum sem eiga framtíðina fyrir sér. Ef Fjölnir nær að halda fókus út sumarið ættu þær sannarlega að geta blandað sér í baráttuna um Pepsi-deilarsæti að ári.

3. Höttur
Höttur á mjög erfiðan heimavöll og þá hefur Sigríður Þorláksdóttir unnið virkilega gott starf á Egilsstöðum. Liðið var eitt skemmtilegasta lið deildarinnar í fyrra og sýndi það og sannaði að það er vel samkeppnishæft gegn bestu liðum deildarinnar. Með tilkomu tveggja sterkra erlendra leikmanna mun Hattarliðið vafalaust blanda sér af fullum krafti í baráttuna um sæti í úrslitakeppninni.

4. Grindavík
Grindavík hefur endurheimt margar af sínum stelpum til baka eftir útlegð hjá öðrum liðum. Má þar nefna þær Elínborgu og Önnu Þórunnni sem snúa til baka frá ÍBV og munar um minna. Þar að auki hafa tveir erlendir leikmenn bæst í leikmannahóp Grindavíkur. Reynsluboltinn Helgi Boga þjálfar þær og hann kann ýmislegt fyrir sér í boltanum. Lið Grindarvíkur verður erfitt heima að sækja og mun án vafa blanda sér af alvöru í toppbaráttuna.

5. Völsungur
Húsavíkurliðið hefur verið að byggja upp kvennabolta jafnt og þétt og hefur verið unnið gott starf þar. Liðið á skemmtilega leikmenn og getur á góðum degi spilað hörkubolta. Til að blanda sér í toppbaráttuna þurfa Völsungar að gera sinn heimavöll að gryfju og gengi liðsins mun eflaust markast mikið af árangri á heimavelli.

6. Sindri
Sindri kom á óvart í fyrra og var lengi vel í toppbaráttunni. Í ár hafa þær hins vegar misst markmanninn sinn til Grindavíkur, en á móti fengið tvo erlenda leikmenn. Liðið er mjög erfitt heim að sækja og með gamla refinn, Cardaklija sem þjálfara, þannig að þær geta hæglega bitið frá sér í ár og tekið stig af hverjum sem er.

7. Keflavík
Eftir að hafa verið með sterkt kvennalið undanfarin ár hefur aðeins sigið á ógæfuhliðina hjá Keflvíkingum. Liðið er svolítið spurningamerki í ár. Það getur vel tekið stig á sterkum heimavelli sínum en er ekki líklegt til að blanda sér í toppbaráttuna.

8. Fjarðabyggð
Lið Fjarðabyggðar hefur átt erfitt uppdráttar en það er hugur í Ólafi þjálfara og hefur hann fengið til sín þrjá erlenda leikmenn sem ættu að styrkja hópinn verulega. Hvort það er nóg til að komast af botninum verður að koma í ljós á vellinum í sumar.

Smelltu hér til að skoða spánna fyrir A-riðilinn
Athugasemdir
banner
banner
banner