Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   mið 22. júní 2022 10:39
Elvar Geir Magnússon
Leeds hafnaði tilboði Arsenal í Raphinha
Raphinha hefur skorað 17 úrvalsdeildarmörk í 65 leikjum með Leeds í ensku úrvalsdeildinni.
Raphinha hefur skorað 17 úrvalsdeildarmörk í 65 leikjum með Leeds í ensku úrvalsdeildinni.
Mynd: Getty Images
Leeds United hefur hafnað tilboði Arsenal í brasilíska vængmanninn Raphinha samkvæmt heimildum The Athletic.

Tilboðið var víst talsvert frá verðmiðanum á leikmanninum og Leeds hafnaði því samstundis. Þetta er fyrsta formlega boðið sem Leeds fær í leikmanninn.

Mikel Arteta, stjóri Arsenal, vill ólmur fá Raphinha og Edu yfirmaður íþróttamála hjá félaginu er með góð sambönd við umboðsmann hans, Deco.

Hinn 25 ára gamli Raphinha hefur fest sig í sessi í brasilíska landsliðinu og lengi verið sterklega orðaður við Barcelona sem er hans fyrsti kostur. Það er þó erfitt fyrir katalónska stórveldið að tryggja sér Raphinha af fjárhagsástæðum.

Chelsea er sagður kostur tvö hjá leikmanninum. Þar fengi hann Meistaradeildarfótbolta og mögulega betri möguleika á að vinna stóra titla en hjá Arsenal sem verður í Evrópudeildinni á næsta tímabili.

Tottenham hefur einnig sýnt Brassanum áhuga en hann hefur skorað 17 úrvalsdeildarmörk í 65 leikjum með Leeds í ensku úrvalsdeildinni.

Fyrr í þessum mánuði greindi The Athletic frá því að Leeds sýndi metnaði Raphinha skilning og ætli sér ekki að standa í vegi fyrir honum ef félag gengur að réttum verðmiða. Núgildandi samningur hans hjá Leeds er til 2024.
Athugasemdir
banner