fös 22. nóvember 2019 12:34
Magnús Már Einarsson
U21 lið Rúmena fór í undanúrslit á EM - Gullkynslóð að koma upp
Icelandair
Rúmenar fagna marki gegn Englandi á EM síðastliðið sumar.
Rúmenar fagna marki gegn Englandi á EM síðastliðið sumar.
Mynd: Getty Images
Alexandru Pascanu tæklar Tammy Abraham í leiknum síðastliðið sumar.
Alexandru Pascanu tæklar Tammy Abraham í leiknum síðastliðið sumar.
Mynd: Getty Images
Ung og spennandi kynslóð er að koma upp í Rúmeníu og ljóst er að í leiknum gegn Íslandi á Laugardalsvelli í mars verða margir ungir leikmenn í leikmannahópi gestanna.

Á EM U21 landsliða síðastliðið sumar fóru Rúmenar alla leið í undanúrslit. Í riðlakeppninni unnu þeir Króatíu og England auk þess að gera jafntefli við Frakka.

Rúmenar unnu Englendinga 4-2 í æsispennandi leik en í liði Englands voru meðal annars leikmenn eins og James Maddison, Tammy Abraham, Fikayo Tomori og Mason Mount.

Í undanúrslitum urðu Rúmenar að játa sig sigraða 4-2 gegn Þjóðverjum. George Puscas, framherji Reading, skoraði bæði mörk Rúmena þar en hann skoraði fjögur mörk á mótinu síðastliðið sumar.

Rúmenar kalla þessa kynslóð sína gullkynslóð og óhætt er að segja að þetta minni að einhverju leyti á íslenska U21 liðið sem fór á EM U21 liða í Danmörku árið 2011.

„Rúmenar eru á mikilli uppleið. Þeir fóru í undanúrslit á EM U21 síðasta sumar og unnu þar meðal annars þetta margumtalaða enska lið 4-2. Ég var á þeim leik. Þeir unnu Króata 4-1 og það er mikill kraftur í þeim sóknarlega," sagði Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, við Fótbolta.net í dag.

„Þetta eru ungir og sprækir strákar með stóra drauma og þeir eru klárlega á mikilli uppleið. Ég skoðaði þetta í morgun og það eru níu stráka úr U21 liðinu í hópnum hjá þeim. Þetta er kunnuglegt stef, við könnumst við þetta. Við vitum að það koma ungir og ferskir strákar með mikið hungur en þeir mæta reyndu íslensku liði á Íslandi og þetta verður skemmtilegt barátta."

Á meðal leikmanna í U21 liðinu síðastliðið sumar var Ianis Hagi, sonur goðsagnarinnar Gheorghe Hagi. Ianis vakti mikla athygli á EM og mörg stór félög vildu fá hann í sínar raðir. Á endanum valdi hann þó að fara til Genk í Belgíu.

Sjá einnig:
Sonur Gheorghe Hagi mætir á Laugardalsvöll
Athugasemdir
banner
banner
banner