,,Það er gríðarlegur léttir að þetta skyldi klárast. Maður var ekki viss um hvar ég myndi enda," sagði Viðar Örn Kjartansson í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu í gær.
Norska félagið Valerenga keypti Viðar frá Fylki fyrir helgi en þessi knái framherji skoraði þrettán mörk með Árbæingum í Pepsi-deildinni í sumar.
Norska félagið Valerenga keypti Viðar frá Fylki fyrir helgi en þessi knái framherji skoraði þrettán mörk með Árbæingum í Pepsi-deildinni í sumar.
,,Maður verður að nota svona tímabil til að fara lengra og ég gerði það. Ég er mjög sáttur með það."
Viðar fór til Valerenga á reynslu í haust og í kjölfarið lýsti félagið yfir áhuga á að kaupa hann í sínar raðir.
,,Ég hefði getað farið til fleira liða á reynslu en þeir lofuðu að kaupa mig. Þeir þurftu að halda sér í deildinni í fyrst og lækka einhverja menn á launum en þeir sögðu mér að bíða og treysti því. Ég sleppti nokkrum ferðum í staðinn. Það var smá áhætta en það borgaði sig að lokum. Þjálfarinn sagði að ég væri fyrsti kostur og þetta er gengið í gegn núna."
Viðar sleit krossband sumarið 2009 en hefur komið sterkur til baka undanfarin ár ,,Ég missti af hálfu timabíli 2009 og hálfu tímabili 2010. Það var smá áfall en maður ræður alveg við það. Ég er búinn að þroskast mjög mikið á þessum árum og maður fattar að maður verður að leggja meira á sig til að ná langt."
Viðar dró vagninn hjá Fylkismönnum í sumar en hann telur að Árbæjarliðið geti fyllt skarðið sem hann skilur eftir sig. ,,Það er ekkert mál. Ég treysti Fylki 100%. Þetta er frábær klúbbur og ég er ánægður með dvöl þeirra þar. Það eru fagmenn þar. Ætli þeir kaupi ekki tvo framherja."
Í spilaranum hér að ofan má hlusta á viðtalið við Viðar í heild sinni en þar talar hann meðal annars um að hann megi ekki lengur fara í ljós.
Athugasemdir


