Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
banner
   fim 23. maí 2024 10:12
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Af hverju er Bayern að ráða stjóra sem skítféll með lið sitt?
Vincent Kompany.
Vincent Kompany.
Mynd: Getty Images
Bayern er stærsta félagið í Þýskalandi.
Bayern er stærsta félagið í Þýskalandi.
Mynd: EPA
Burnley vann aðeins fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni á nýliðnu tímabili.
Burnley vann aðeins fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni á nýliðnu tímabili.
Mynd: Getty Images
Kompany þykir spennandi þjálfari þrátt fyrir fallið.
Kompany þykir spennandi þjálfari þrátt fyrir fallið.
Mynd: EPA
Þýska stórveldið Bayern München er við það að ráða nýjan stjóra eftir langa leit. Margir hafa hafnað félaginu á undanförnum dögum og vikum en þjálfaramarkaðurinn er erfiður þessa stundina.

Bayern virðist þó hafa fundið sinn stjóra, hinn belgíska Vincent Kompany.

Bayern er að reyna að ná samkomulagi við Burnley til þess að ganga frá ráðningunni á Kompany en talið er að enska félagið sé að biðja um 20 milljónir evra fyrir hann.

En af hverju vill stærsta félagið í Þýskalandi ráða stjóra sem féll úr ensku úrvalsdeildinni á nýliðnu tímabili? Kompany fékk að eyða miklum fjárhæðum í Burnley-liðið sitt og keypti hann leikmenn fyrir um 100 milljónir evra, en samt féll Burnley með aðeins 24 stig. Liðið vann fimm leiki af 38 í deildinni.

„Að falla með aðeins 24 stig er ekki frábær söluræða fyrir félög sem eru að leita að nýjum stjóra. Fyrir tólf mánuðum síðan voru hlutabréfin í Kompany í hámarki eftir að hann stýrði Burnley í 101 stiga sigurherferð í Championship-deildinni. Hins vegar, eftir mjög lélegt tímabil í ensku úrvalsdeildinni þá virtust hlutabréfin hafa lækkað," segir í grein The Athletic um mögulega ráðningu Kompany til Bayern.

„Það kemur á óvart að félag eins og Bayern München sé tilbúið að taka áhættu á Kompany, þar sem hann á enn eftir að stjórna liði á hæsta stig. En svo er það líka rétt að þýska félagið virðist orðið uppiskroppa með valkosti í leit sem hófst þegar tilkynnt var í febrúar að Thomas Tuchel myndi hætta eftir tímabilið."

Í greininni er sagt að Kompany sé ekki plan A hjá Bayern, hann sé meira eins og plan J. En hann sé þrátt fyrir fall úr ensku úrvalsdeildinni - þar sem Burnley endaði fyrir neðan Luton - einn mest spennandi ungi stjórinn í Evrópu. Félög eins og Chelsea og Tottenham voru að skoða hann síðasta sumar, en Kompany er aðeins 38 ára gamall og lærði eflaust mikið á sínu fyrsta tímabili sem stjóri í ensku úrvalsdeildinni.

Burnley spilaði afar heillandi fótbolta undir stjórn Belgans í Championship-deildinni, sóknarbolta sem minnti á Manchester City. Þar var Kompany leikmaður og fyrirliði lengi, en hann lítur á Pep Guardiola sem sína helstu fyrirmynd í þjálfun. „Hann er klárlega með magnað hugarfar og veit hvað það þarf til þess að spila á hæsta stigi leiksins," segir í grein The Athletic en Kompany er með mikla reynslu af því að vinna titla sem leikmaður. Bayern horfir í það líka.

Bayern telur að hugmyndafræði Kompany muni henta betur hjá stórliði en hjá Burnley í ensku úrvalsdeildinni. Eins og kannski sást með Burnley þegar liðið var í Championship, þá hentaði hugmyndafræði Kompany býsna vel þar.

Hann er með reynslu af því að tækla stóra karaktera sem fyrirliði Man City og hann talar líka þýsku eftir að hafa spilað með Hamburg á sínum leikmannaferli.

„Það var alltaf að fara að koma stærra félag fyrir Kompany vegna þess að hann hefur verkfærin og prófílinn til að stjórna á hæsta stigi," segir í grein The Athletic en þetta er svo sannnarlega áhugaverð ráðning hjá Bayern. Það voru ekki margir sem bjuggust við þessu eftir að enska úrvalsdeildin kláraðist, en þetta er að öllum líkindum að fara að gerast. Þrátt fyrir fall þá er Kompany enn stór prófíll í fótboltaheiminum.

Bayern vann ekki neina titla á tímabilinu sem var að klárast og Kompany er maðurinn sem á að koma með þá aftur til félagsins.
Athugasemdir
banner
banner