
'Ég er því mjög ánægður og stoltur af sjálfum mér að vera kominn á þennan stað og verandi búinn að spila í heildina 18 leiki'

Gengi Breiðabliks hefur alls ekki verið gott að undanförnu, liðið vann síðast deildarleik gegn Vestra í júlí.
Breiðablik heimsækir í kvöld Val í lokaleik fyrstu umferðarinnar eftir tvískiptingu. Liðin eru í 3. og 4. sæti deildarinnar fyrir leikinn, Breiðablik þarf að vinna til að blanda sér í Evrópubaráttu og Valur til að halda pressu á toppliði Víkings.
Fótbolti.net ræddi við Kristin Jónsson, vinstri bakvörð Breiðabliks, í aðdraganda leiksins.
Fótbolti.net ræddi við Kristin Jónsson, vinstri bakvörð Breiðabliks, í aðdraganda leiksins.
Ætla að þrýsta Valsarana niður
„Við förum inn í þennan leik fullir sjálfstrausts og með það hugarfar að sækja sigur. Auðvitað vitum við að Valur er með sterkt lið og er það lið sem hefur verið hvað sterkast á heimavelli í ár. En við erum búnir að undirbúa okkur mjög vel, liðið er í góðu líkamlegu formi og allir einbeittir á að ná í góð úrslit. Ég trúi því að ef við spilum okkar leik, með þeim áherslum sem við viljum sjá, þá vinnum við þennan leik,” segir Kristinn.
Hvað þurfið þið að gera til að vinna Val?
„Fyrst og fremst snýst þetta um að spila okkar leik og gera það sem hefur einkennt Breiðablik undanfarin tvö ár sem ég hef verið hér. Við ætlum að halda boltanum vel, pinna þá niður með sóknarbolta, pressa þá um allan völl og hlaupa yfir þá.“
Er eitthvað sérstakt sem þið þurfið að loka á hjá þeim?
„Miðað við hvernig síðasti leikur spilaðist geri ég ráð fyrir að þeir liggi meira til baka og reyni að nýta hraðann sinn fram á við til að sækja hratt þegar tækifæri gefast. Fyrir okkur er lykilatriði að halda boltanum, stjórna tempóinu og setja þá undir stöðuga pressu. Við þurfum líka að vera vel vakandi í transition og í föstum leikatriðum.”
Hvernig leggjast þessir fimm leikir í þig, hvað viljið þið fá út úr þeim?
„Þeir leggjast mjög vel í mig. Framundan eru fimm erfiðir leikir þar sem við þurfum að eiga toppframmistöður til að eiga möguleika á Evrópusæti.”
Maður gerir ekki mikið í lífinu ef hausinn er ekki í lagi
Tímabilið til þessa hjá þér og ykkur – hvernig sérðu það í heild sinni? Hvernig var að þurfa að horfa á framan af móti? Fyrst höfuðmeiðsli og svo önnur meiðsli – kemur engin uppgjöf?
„Tímabilið hefur verið dálítið tvískipt hjá okkur. Við náðum markmiðinu okkar í Evrópu sem var að komast í deildakeppnina þar sem við ætlum okkur að gera betur heldur en fyrir tveimur árum. En í deildinni hefur þetta einfaldlega ekki verið nógu gott. Við höfum ekki alveg náð taktinum, sérstaklega síðustu vikur, en ætlum okkur að snúa því við núna í síðustu fimm leikjunum.”
„Fyrir mig persónulega hefur þetta tímabil verið allskonar. Það tók mig um fimm mánuði að jafna mig alveg af höfuðmeiðslunum og síðan tognaði ég í náranum í kjölfarið og var frá í 10–12 vikur. Það fór ýmislegt í gegnum hausinn á mér á þessum tíma, sérstaklega í kringum höfuðmeiðslin. Ég hugsaði alveg á fjórða mánuði hvort þetta væri þess virði, hvað myndi gerast ef ég skallaði bolta eða lenti aftur í samstuði. Maður gerir ekki mikið í lífinu ef hausinn er ekki í lagi. Annars er ég mjög þakklátur öllum hjá Breiðabliki sem hjálpuðu mér í gegnum þennan tíma og gæti ekki verið ánægðari að vera byrjaður að spila fótbolta aftur. En auðvitað hefði ég viljað vera búinn að byrja fleiri leiki í deildinni en þessa fjóra og hafa bara spilað 90 mínútur einu sinni."
Hvernig líður þér með standið í dag?
„Það fer dálítið eftir því hvort maður horfir á glasið hálftómt eða hálffullt. Ef maður horfir raunhæfum augum á þetta gæti staðan ekki verið betri. Ég spilaði ekki fótboltaleik í tæpa átta mánuði (frá lok október til loka júní) og fyrstu vikurnar eftir höfuðhöggið gat ég hvorki farið í göngutúr, keyrt bíl né hugsað um strákinn minn án þess að fá svima. Með það í huga gæti ég ekki verið á betri stað líkamlega núna, sérstaklega þegar ég kem beint inn í mjög þétta leikjatörn þegar ég byrja að spila þar sem er spilað á 3–4 daga fresti og lítið um æfingar. Ég er því mjög ánægður og stoltur af sjálfum mér að vera kominn á þennan stað og verandi búinn að spila í heildina 18 leiki. En að því sögðu þá er ég er líka fyrstur til að viðurkenna að ég á smá í land í að ná sama formi og ég var í fyrra og hef verið í síðustu ár,” segir Kiddi að lokum.
Leikur Vals og Breiðabliks hefst klukkan 19:15 í kvöld og fer fram á N1-vellinum að Hlíðarenda.
Besta-deild karla - Efri hluti
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. Víkingur R. | 23 | 13 | 6 | 4 | 49 - 28 | +21 | 45 |
2. Stjarnan | 23 | 12 | 5 | 6 | 43 - 35 | +8 | 41 |
3. Valur | 22 | 12 | 4 | 6 | 53 - 35 | +18 | 40 |
4. Breiðablik | 22 | 9 | 7 | 6 | 37 - 35 | +2 | 34 |
5. FH | 23 | 8 | 7 | 8 | 41 - 35 | +6 | 31 |
6. Fram | 23 | 8 | 5 | 10 | 33 - 33 | 0 | 29 |
Athugasemdir