Stjarnan og FH mættust í kvöld á Samsungvellinum í Garðabæ í fyrstu umferð efri hlutans eftir tvískiptingu Bestu deildar karla. Vel var mætt á völlinn en markalaust jafntefli var niðurstaðan í lok leiks. Jökull Elísabetarson var fjarri góðu gamni í kvöld en hann tók út leikbann og kom það þá í hlut Þórarins Inga Valdimarssonar að stýra liðinu.
„Við erum bara svekktir að geta ekki náð að skora og fá kannski fleiri færi í þessum leik. Mér fannst við alveg vera að hreyfa boltann ágætlega og náð að komast í góðar stöður og allt það en mér fannst bara heilt yfir að ef við hefðum náð að koma okkur ákveðið í einhverja seinni bolta, að þá hefðum við geta gert eitthvað."
Lestu um leikinn: Stjarnan 0 - 0 FH
Jökull Elísabetarson var í banni í leiknum í kvöld og var því fjarverandi á hliðarlínunni á Samsungvellinum. Þórarinn Ingi Valdimarsson, fyrrum leikmaður og nú aðstoðarþjálfari Stjörnunnar, stýrði leiknum í hans fjarveru.
„Þetta er bara gaman. Ég er að vinna hérna og hjálpa bara til eins og ég get og ég kom á bekkinn og var að hjálpa til og við erum bara þannig lið að það stíga bara allir upp, þegar á þarf að halda. Það var mitt hlutverk að stýra en ég var með góða menn með mér á bekknum."
Stjarnan tekur á móti Víkingi í sannkölluðum toppslag næsta mánudag en tapist sá leikur, er ljóst að titilvonir Stjörnumanna minnki töluvert. Það var því öll augu á þeim leik og spennandi að sjá hvernig sá leikur spilast.
„Ég er bara búast við því sama. Þeir eru líkamlegt lið líka og allt það en við þurfum bara núna að 'recovera' vel eftir þetta kvöld og mæta 100% í næsta leik."