
„Þetta er bara frábært, það er það sem er skemmtilegt við þetta fyrirkomulag. Að geta spilað alvöru úrslitaleik á Laugardalsvelli, það er geðveikt, ég er mjög spenntur fyrir þessu," sagði Ívar Örn Jónsson leikmaður HK eftir 3-2 sigur gegn Þrótturum, sem tryggði HK áfram í úrslit umspilsins í Lengjudeildinni.
Lestu um leikinn: Þróttur R. 2 - 3 HK
HK var að spila sinn þriðja leik við Þrótt á skömmum tíma, en HK tókst að vinna alla þessa leiki.
„Uppleggið var mjög svipað og í fyrri leiknum, og þegar við spiluðum við þá í deildinni. Það var aðeins öðruvísi að koma inn í þennan leik einu marki yfir. Þannig við þurftum að vera tilbúnir í það að vera forystuna eins og við gerðum svona síðustu 10 mínúturnar. Heilt yfir þá ætluðum við bara að stíga upp á þá, og ekki vera að fara í einhverjar skotgrafir. Það boðar ekki gott þegar maður er í svona einvígum," sagði Ívar.
Ívar lagði upp tvö mörk hjá HK í dag, bæði úr hornspyrnum.
„Hornin hafa verið að detta svona við og við, það skilaði sér í dag. Mér fannst við eiga inni eftir fyrri leikinn, við vorum fyrstir á mikið af þessum boltum í hornspyrnum og það er bara æðislegt að sjá hann syngja í netinu tvisvar í dag," sagði Ívar.
Ívar var með fyrirliðabandið í dag og er með reyndari mönnum liðsins. Meðalaldurinn á byrjunarliðinu var 23 ára með Ívari sem er 30 ára gamall.
„Það er bara frábært að við gefum þessum ungu strákum mikið tækifæri og þeir hafa bara staðið sig frábærlega í sumar, allir með tölu í rauninni. Manni finnst maður vera full gamall oft þegar maður er í liði þar sem meðalaldurinn er bara 22. En bara heilt yfir er þetta bara geggjað," sagði Ívar.
Viðtalið má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.