Uppaldni Framarinn Viktor Bjarki Daðason var í leikmannahóp danska stórveldisins FCK í gær. Viktor er sautján ára gamall og gekk til liðs við danska félagið frá Fram á síðasta ári. Rúnar Kristinsson þjálfari Fram var stoltur af sóknarmanninum er hann var spurður út í afrek Viktors eftir leik Fram og Víkings í gær.
„Ég er ótrúlega stoltur af honum og allir Framarar eru það. Gríðarlega stórt að hafa á rétt rúmu ári að hafa unnið sig frá 17 ára liðinu upp í 19 ára liðið, skora fullt af mörkum og er nú kominn í hópinn hjá aðalliði FCK sem er besta lið Norðurlandanna. Við erum ótrúlega stoltir af honum og hlökkum til að fylgjast með honum áfram.“
Hversu langt getur Viktor náð?
„Það er voða erfitt að segja það. Við skulum vona að hann fái áfram að vera í hóp og að hann fái eina og eina mínútu hér og þar, kannski fleiri. Þetta er leið sem við þekkjum sem frábærir íslenskir fótboltamenn hafa farið í gegn. Hákon (Arnar Haraldsson) og Orri (Steinn Óskarsson) hafa farið þarna í gegn. Ef þú kemst þarna inn þá eru þér allir vegir færir.“
Viðtalið við Rúnar má sjá hér fyrir neðan, hann er spurður út í Viktor Bjarka á mínútu 5:30.
Athugasemdir