Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 23. október 2019 10:04
Magnús Már Einarsson
Eiríkur hættur eftir 14 ár hjá FH
Eiríkur Þorvarðarson.
Eiríkur Þorvarðarson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Eiríkur Þorvarðarson, markmannsþjálfari FH, hefur látið af störfum eftir 14 ár hjá félaginu en hann greinir frá þessu á Facebook síðu sinni.

Á þessum 14 tímabilum hefur FH sex sinnum orðið Íslandsmeistari og tvívegis bikarmeistari.

Ekki kemur fram hvort Eiríkur haldi áfram í markmannsþjálfun en hann hefur meðal annars verið orðaður við Val þar sem fyrrum samstarfsfélagi hans Heimir Guðjónsson tók við þjálfun á dögunum. Markmannsþjálfarastaðan hjá Val er laus eftir að Rajko Stanisic hætti eftir tímabilið.

Yfirlýsing Eiríks á Facebook
Kæru FH félagar og vinir
Það hlaut að koma að því að maðurinn sem kenndur er við náttSerk myndi hætta þjálfun fyrir fimleikafélagið. Fjórtán ár er langur tími, en ef mér gæfist tækifæri til að endurtaka þennan tíma myndi ég alla daga segja já takk. Það er gott fyrir félagið að hleypa nýju blóði inn í klúbbinn – einstaklingi með aðrar hugmyndir og nálgun í markmannsþjálfun. Ég er ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að taka þátt í uppbyggingu og velgengni félagsins þessi 14 ár og ekki síður kynnast öllu því góða fólki sem félagið á og lætur hlutina ganga upp á bakvið tjöldin. FH er frábær klúbbur með sögu um frábæra þjálfara, leikmenn og stuðningsmenn sem hafa svo sannarlega kryddað þetta ævintýri og gefið mér frábærar minningar sem eiga eftir að ylja mér um ókomna tíð.

Ég vil þakka Óla Jó fyrir að hafa trúað á mig í upphafi og gefið mér tækifæri árið 2006 með því að taka mig inn í þjálfarteymið og vinna minn fyrsta Íslandsmeistaratitil. Síðar komu þjálfarateymi með snillingum á borði við Heimir Guðjons, Jörundur Áki Sveinsson, Kolbrún Vala Jónsdóttir, Guðlaugur Baldursson, Jónas Grani Garðarsson, Guðjón Örn Ingólfsson, Óli Páll Snorrason, Róbert Magnússon og nú síðast Óli Kristjáns, Hákon Atli Hallfreðsson og Ásmundur Haraldson – takk fyrir samstarfið og traustið félagar, ég vona að þið hafið notið þess eins vel ogi ég gerði. Ætla ekki að gleyma Ólafur Helgi Guðmundsson „Kit Manager“ – þú býrð til besta djúsinn og enginn hugsar eins vel um liðið sitt og þú.

Ég vil líka sérstaklega þakka öllum þeim frábæru markvörðum sem ég hef fengið að vinna með hjá félaginu. Allt flottir markmenn og yndislegar manneskjur. Ég verð að nefna - Dadi Larusson, Gunnar Sigurðsson, Gunnleifur Gunnleifsson, Róbert Örn Óskarsson, Kristján Finnbogason, Gunnar Nielsen, Vignir Jóhannesson og Daði Freyr Arnarsson. Þið hafið allir verið frábærir fyrir félagið og það hefur verið heiður að þjálfa ykkur og lyfta Íslandsmeistaratitlum með ykkur öllum. Sex sinnum Íslandsmeistari og tvisvar sinnum Bikarmeistari segir ansi mikið um það hversu öflug markvarðasveit félagsins hefur verið á þessu 14 tímabilum og er ég svo sannarlega stoltur að hafa tekið þátt í þessari vegferð með ykkur öllum og verið þjálfarinn ykkar. Takk drengir.

Stuðningsmenn FH ættu síðan ekki að kvíða framtíðinni með eitt besta markvarðapar landsins þá Gunnar Nielsen og Daða Frey að berjast um sætið á næstu árum.
Ég geng því þakklátur frá borði með fullan tank af minningum um karlmennsku, tilfinningar, gleði, sorg, vinskap, titla, og frábæra félaga sem hafa svo sannarlega veitt mér jákvæðan innblástur í lífið.
Takk fyrir mig FHingar - LUV
Eiki Þorvarðar – AKA / SERKURINN
Athugasemdir
banner
banner