Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fös 23. október 2020 11:30
Magnús Már Einarsson
Varnarmaður Hattar/Hugins fékk hjartaáfall - Ferlinum lokið
Petar Mudresa ásamt eiginkonu sinni eftir aðgerðina á dögunum.
Petar Mudresa ásamt eiginkonu sinni eftir aðgerðina á dögunum.
Mynd: Getty Images
Petar í leik með Hetti árið 2017.
Petar í leik með Hetti árið 2017.
Mynd: Raggi Óla
Petar Mudresa, varnarmaður Hattar/Hugins, lifði af eftir að hafa fengið hjartaáfall fyrr í þessum mánuði. Ljóst er hins vegar að fótboltaferlinum er lokið hjá þessum 35 ára gamla Serba.

Petar kom til Hattar árið 2017 en hann settist í kjölfarið að á Egilsstöðum með fjölskyldu sinni og hefur spilað fótbolta þar undanfarin fjögur ár.

Mánudaginn 13. október hrundi Petar niður hjá sér um 06:50 um morguninn, fékk enga verki en hann hélt hann hefði bara fengið svima. Petar stóð síðan upp aftur eins og ekkert hefði í skorist. 15 mínútum seinna gerðist þetta aftur. Petar fann allt í einu fyrir svima, missti allan mátt og lá á herbergisgólfinu. Þarna var um að ræða tvö væg hjartaáföll.

Eiginkona Petar sendi í kjölfarið 6 ára son þeirra til að sækja hjálp hjá nágrönnum sem þau leigja hjá og um leið og þau komu hringdu þau beint í 112.

Petar fannst það reyndar fáránleg hugmynd en það liðu aðeins nokkrar mínútur í að sjúkrabíllinn kom og klukkan 7:20 var hann kominn upp á heilsugæslustöð. Klukkan 8:20 var sjúkraflugvél komin á Egilsstaði og honum var flogið suður. Í flugvélinni fékk hann svo sitt þriðja hjartaáfall þar sem hjartað hætti að slá í ca 30-40 sekúndur. Í flugvélinni fór hann síðan beint á Landspítalann í rannsóknir.

Ekkert fannst í rannsóknum
Guðmundur Bj. Hafþórsson, formaður Hattar/Hugins, segir að Petar hafi farið í miklar skoðanir en ekki hafi komið í ljós hvað olli hjartaáfallinu.

„Hann fór í margar skoðanir í þá viku sem hann var í Reykjavík, en læknar fundu ekki út hvað olli þessu. Gangráður var ígræddur í hann sem hann mun þurfa á að halda til að þetta komi ekki fyrir aftur," sagði Guðmundur.

„Engin hjartaveiki er í fjölskyldunni hans og maðurinn í frábæru formi miða við aldur, 4-5% fita, drekkur ekki, notar ekki tóbak, borðar hárréttan mat til að halda sér í formi, sefur rétt og hvílir sig vel. Helgin á undan var einmitt afskaplega róleg, fjölskyldutími, göngur og borða góðan mat."

„Það er útséð að Petar mun ekki spila meiri knattspyrnu á ferlinum og hefur spilað sinn síðasta leik í búningi Hattar/Hugins. En engu að síður gott að ekki fór verr, ef hann hefði fengið áfall sofandi, í leik eða t.d. í akstri þá veit maður ekki hvað hefði gerst;" sagði Guðmundur.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner