„Ég get ekki beðið, ég hlakka til að mæta þeim á morgun," sagði Jason Daði Svanþórsson, leikmaður Breiðabliks, í samtali við Fótbolta.net í dag.
Á morgun spilar Breiðablik fyrri leik sinn gegn FC Kaupmannahöfn frá Danmörku í annarri umferð forkeppni Meistaradeildar Evrópu.
Breiðablik sló út Shamrock Rovers frá Írlandi í fyrstu umferð og mætir núna stærsta félagi Skandinavíu.
„Þetta er stórt félag með mikla sögu og maður getur ekki beðið eftir því að spila á móti þeim. Ég býst við hörkuleik," segir Jason en hann telur Blika eiga góða möguleika á því að stríða stórliðinu frá Kaupmannahöfn.
„Ég held að þetta verði 50/50 leikur ef við spilum okkar leik og hlaupum yfir þá. Óskar, Dóri og allir í þjálfarateyminu eru búnir að liggja yfir þessu. Við tökum fund á eftir og förum þá vel yfir þá."
Særún sjúkraþjálfari er langbest
Jason hefur verið að glíma við meiðsli á tímabilinu og ekki spilað eins mikið og hann hefði viljað, en hann var frábær í síðasta Evrópuleik gegn Shamrock Rovers og segist vera í toppstandi núna.
„Ég byrjaði tímabilið aðeins meiddur en núna er ég eins og nýr," segir Jason.
„Særún sjúkraþjálfari er langbest og hún á risastórt hrós skilið fyrir alla hjálpina. Maður er mjög þakklátur fyrir hana. Það er auðvitað alltaf erfitt að vera meiddur og lenda í mótlæti, en það styrkir mann líka. Ég get ekki kvartað yfir neinu. Ég get ekki beðið eftir leiknum á morgun."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir
























