Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 24. september 2020 14:30
Magnús Már Einarsson
Jón Stefán: Galið ef heimastelpurnar myndu ekki fá tækifæri í efstu deild
Guðni Þór Einarsson og Jón Stefán Jónsson þjálfarar Tindastóls.
Guðni Þór Einarsson og Jón Stefán Jónsson þjálfarar Tindastóls.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik hjá Tindastóli.
Úr leik hjá Tindastóli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Stefán Jónsson.
Jón Stefán Jónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Tindastóll tryggði sér í gær sæti í Pepsi Max-deild kvenna í fyrsta skipti í sögunni. Jón Stefán Jónsson og Guðni Þór Einarsson þjálfa liðið. Fótbolti.net ræddi við Jón Stefán í dag og spurði hver er lykillinn að þessum árangri?

„Lykillinn að mínu mati er tvíþættur. Í fyrsta lagi er það baklandið, þ.e. að stjórnin gerir allt fyrir okkur og svo hins vegar virkilega sterkur grunnur af heimaöldum stúlkum. Þessi grunnur er það sem við munum halda áfram að byggja á og er kvennastarfið í þessu félagi mjög gott," sagði Jón Stefán við Fótbolta.net í dag.

„Stelpurnar sem nú eru í meistaraflokki búa virkilega vel að því að hafa fengið mjög góða grunnþjálfun hjá frábærum yngri flokka þjálfurum í félaginu og verð ég að nota tækifærið og þakka þeim Guðjóni Erni og Dúfu Dröfn sem hafa að öðrum ólöstuðum, borið hitann og þungann af kvennastarfinu ásamt Guðna og fleiri öflugum þjálfurum í yngri flokka starfinu. Yngri flokka þjálfarar fá oft ekki nógu mikla viðurkenningu fyrir þeirra störf. En þeirra vinna er algjört lykilatriði í að árangur hjá svona smáum félögum náist. Síðast en ekki síst má ekki gleyma að þakka móður kvennafótboltans á króknum og einni af drottningum kvennaboltans á íslandi, Vöndu Sigurgeirsdóttur fyrir að hafa byrjað þetta allt."

„Hinn lykillinn í þessu er einfaldlega að við höfum fengið rétta leikmenn inn í hópinn. Það þekkja auðvitað allir Murr (Murielle Tiernan) en þær, Jackie og Amber hafa verið frábærar og að sjálfsögðu okkar öflugu lánsstelpur sem hafa gefið gríðarlega innspýtingu inn í hóp sem þegar var sterkur fyrirfram."

Tindastóll gulltryggði sætið í Pepsi Max-deildinni með 4-0 sigri á Völsungi í 15. umferð Lengjudeildarinnar í gær.

„Spennustigið var fyrir leik gott en ég væri að ljúga ef ég segði að við þjálfararnir höfum verið ánægðir með fyrri hálfleikinn. Mér fannst við ólíkar sjálfum okkur og leyfðum Völsungum alltof mikið að hafa boltann á stöðum sem við viljum ekki hafa hann. Eina ástæðan sem ég get fundið fyrir því er stress, því hingað til hafa hlutirnir verið í lagi. Það hins vegar að hafa komið út og átt þennan dúndur seinni hálfleik sýndi mikinn karakter og sigurinn verðskuldaður."

Jón Stefán vonast til að leikmanahópurinn verði svipaður á Sauðárkróki næsta sumar en margir leikmenn í hópnum spiluðu einnig með Tindastóli þegar liðið fór upp úr 2. deildinni árið 2018.

„Ég er mjög bjartsýnn á að halda öllum þeim sem eru uppaldar hjá félaginu og erlendu leikmönnunum þremur. Auðvitað verður að ráðast með stelpurnar sem eru að láni, þær vilja nú eflaust snúa til baka í sín „móður“ félög og láta reyna á sitt þar. Markmiðið okkar fyrir næsta sumar er auðvitað að styrkja okkur aðeins en það er alveg klárt mál að áfram verður haldið í gildi hópsins og þær heimastelpur sem hafa staðið með okkur síðan í 2.deild fá sitt tækifæri til að spila í efstu deild. Annað væri galið."

„Stemmningin fyrir næsta sumri er náttúrulega mjög mikil og hún er nú ekki síður mikil núna. Ég hlakka mikið til að sjá hvernig mætingin verður á næsta leik. En hún hefur reyndar verið mjög góð í sumar, sérstaklega ef mið er tekið af þeim aðstæðum sem eru í gangi í þjóðfélaginu. Veðrið hefur heldur ekkert hjálpað neitt svakalega undanfarið," sagði Jón Stefán að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner