Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 24. september 2022 15:26
Fótbolti.net
Rætt um hvort Arnar gæti tekið strax við Val - „Hvað hefur Óli Jó við þessa fimm leiki að gera?"
Hallgrímur Jónasson og Arnar Grétarsson.
Hallgrímur Jónasson og Arnar Grétarsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.
Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fram kom í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977 að menn gæfu ekki kost á sér í viðtöl á þessum tímapunkti eftir fréttirnar frá Akureyri í gær.

Stjórn KA tók þá ákvörðun að Hallgrímur Jónasson tæki við liðinu og Arnar Grétarsson hefur látið af störfum.

„Ég hringdi í Arnar í morgun og honum finnst ekki rétt á þessum tímapunkti að tjá sig eitthvað um þetta. Eina sem hann vill láta hafa eftir sér er að hann sé með munnlegt samkomulag við annað félag," segir Elvar Geir í þættinum.

Hann segir að Arnar sé klárlega svekktur yfir því að fá ekki að klára verkefnið en óski KA alls hins besta og vonar að liðið klári tímabilið vel. Talið er víst að Arnar sé búinn að semja við Val.

„Arnar er að sunnan og hann hefur talað um að hugur sinn leiti þangað. Hann fær þetta tilboð frá Val og tekur því. KA menn höfðu greinilega tekið þá ákvörðun að ef Arnar Grétarsson myndi ekki halda áfram þá væri Hallgrímur Jónasson sá sem tæki við skútunni. KA telur best að skipta strax, það er þeirra ákvörðun," segir Elvar en árangur KA undir stjórn Arnars var afskaplega góður.

„Það sem Arnar skilur eftir sig, arfleiðin hjá KA, hann er búinn að hækka rána á Akureyri í allri fagmennsku. Hann var flottur kyndilberi hjá félaginu líka í að kalla eftir bættri aðstöðu."

Hefur Óli Jó áhuga á því að fara inn í fimm þýðingarlausa leiki í október?
Í þættinum var einnig rætt um það hvort Arnar gæti mögulega tekið strax við Val og hvort Ólafur Jóhannesson hefði einhvern áhuga á því að klára þá fimm leiki sem eftir eru.

„Valur hefur ákveðið að Arnar Grétarsson er maðurinn sem mun leiða þetta. Það eru fimm leikir eftir af tímabilinu. Ef þú værir Börkur (formaður Vals), myndir þú vilja fá Arnar við stjórnina núna? Hann er laus frá KA. Það myndi pottþétt hjálpa félaginu, Arnar væri fljótari að finna út hvað hann vill gera og hvað honum finnst hann vanta," segir Elvar við Tómas Þór.

„Það gæti verið betra fyrir hann að vera upp í stúku og greina leikina en þá fær hann auðvitað ekki nasaþef af klefanum," segir Tómas sem taldi upp kosti og galla þess að Arnar tæki strax við.

„Ef ég væri Valur þá myndi ég vilja fá hann sem fyrst inn. Ef það myndi gerast þá yrðu risafréttir ef Óli Jó myndi missa starfið sitt í annað sinn á tímabilinu," segir Elvar.

„Svo er það líka. Hefur Óli Jó áhuga á því að fara inn í fimm þýðingarlausa leiki í október? Hvað hefur Ólafur Jóhannesson við þessa fimm leiki að gera ef hann er ekki að fara að þjálfa Val áfram? Kannski mun þetta enda þannig að Arnar Grétarsson stýrir liðinu í október. Óli Jó er beinskeyttur og ef hann vildi þjálfa Val áfram en fær þetta í andlitið," segir Tómas.

„KA og Valur mætast í lokaumferðinni. Það væri sögulína ef Arnar Grétarsson labbar inn í KA-heimilið með Valsliðið á eftir sér," segir Elvar en hægt er að hlusta á þáttinn og umræðuna í heild sinni í spilaranum hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Stóru fréttirnar að norðan, landsliðin og bestir í Bestu
Athugasemdir
banner