Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Íslandsmeistara Víkings, var í gær ofarlega á lista veðbanka yfir líklegustu kostina til þess að taka við þjálfarastarfinu hjá skoska úrvalsdeildarfélaginu Hearts.
Heimir Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar Víkings, sagði við Vísi í gær að enginn frá Hearts hefði sett sig í samband við Víking.
Fótbolti.net sendi fyrirspurn á Arnar sjálfan í dag og hann staðfestir að enginn frá Hearts hefði sett sig í samband við sig. Arnar þekkir til á Skotlandi eftir að hafa spilað með Dundee United á tímabilinu 2002-2003.
Hearts er á botni skosku deildarinnar og var Steven Naismith rekinn frá félaginu eftir 2-1 tap gegn St. Mirren um helgina. Arnar var í gær í þriðja sæti yfir líklegustu kostina til að taka við. Hann var á eftir þeim Alex Neil (fyrrum stjóri Stoke og Sunderland) og Stephen Robinson. Derek McInnes er einnig orðaður við starfið.
Arnar undirbýr nú lið sitt, Víking, fyrir leik gegn FH á morgun. Með sigri fer Víkingur aftur á topp Bestu deildarinnar. Framundan er hörð titilbarátta við Breiðablik og leikir í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar.
Athugasemdir