þri 25. febrúar 2020 10:43
Magnús Már Einarsson
Hvar passar Gylfi í lið Everton? - Hjörvar kemur til varnar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Gylfi fagnar marki gegn West Ham í vetur.
Gylfi fagnar marki gegn West Ham í vetur.
Mynd: Getty Images
The Athletic skrifar í dag langa grein um Gylfa Þór Sigurðsson og framtíð hans hjá Everton. Eftir þrettán mörk og sex stoðsendingar á síðasta tímabili hefur Gylfa ekki vegnað eins vel á þessu tímabili en hann hefur skorað eitt mark og lagt upp tvö.

Carlo Ancelotti hefur spilað mikið 4-4-2 eftir að hann tók við Everton í desember og samkvæmt The Athletic er það kerfi komið til að vera fyrir næsta tímabil.

Gylfi hefur verið í varnarsinnaðara hlutverki en áður á miðjunni hjá Everton auk þess sem hann hefur spilað úti vinstra megin. The Athletic segir líklegt að Ancelotti bæti við miðjumanni í sumar en fyrir eru auk Gylfa hjá félaginu miðjumennirnir Andre Gomes, Jean-Philippe Gbamin, Morgan Schneiderlin, Fabian Delph og Tom Davies.

Á vinstri kantinum myndi Gylfi berjast við Alex Iwobi, Bernard og Anthony Goron um stöðu. Gylfi hefur á ferli sínum í Englandi blómstrað mest í hlutverki fremsta miðjumanns en útlit er fyrir að Ancelotti verði ekki með þá stöðu til staðar í liði Everton í framtíðinni.

Í 3-2 tapinu gegn Arsenal um helgina átti Gylfi tvö skot og þrjár lykilsendingar en hann tapaði boltanum ellefu sinnum sem er meira en tvöfalt meira en næsti leikmaður Everton. Sendingarprósenta hans var einnig talsvert lægri en hjá öðrum miðjumönnum Everton. Hann átti hins vegar þátt í báðum mörkum Everton í leiknum.

„Hvað hafa Iwobi og Bolasie boðið upp á?"
Í grein The Athletic er rætt við Hjörvar Hafliðason og hann kemur Gylfa til varnar. Hjörvar segir að Everton eigi alls ekki að selja Gylfa í sumar.

„Það virðist vera algengt hjá fólki að gagnrýna hann eftir leiki nýlega. Það er eins og þetta hafi byrjað eftir tapið gegn Liverpool í enska bikarnum á Anfield," segir Hjörvar.

„Já, þetta hefur verið erfitt tímabil fyrir hann miðað við fyrri timabil en hann er alltaf til í slaginn, alltaf tilbúinn að spila í bláu treyjunni og er nánast alltaf með nýjan mann við hliðina á sér á miðjunni, hvort sem það er Scheiderlin, Delph eða Davies. Á síðasta tímabili spilaði Gylfi alla deildarleiki."

„Fólk talar mikið um verðmiðann á honum og þegar hann er ekki að skora og leggja upp þá er hann ræddur. Kaupin á Alex Iwobi gætu kostað 34 milljónir punda og hvað hefur hann boðið upp á? (1 mark og enga stoðsendingu í 18 leikjum)"

„Everton keypti Yannick Bolasie fyrir háa fjárhæð (25 milljónir punda) fyrir nokkrum árum. Hvað hefur hann gert? (Tvö deildarmörk og fjórar stoðsendingar)."

„Þetta tal um Gylfa er komið í umræðuna á Íslandi núna og stuðningsmenn Liverpool eru byrjaðir að setja spurningamerki við hann. Að mínu mati yrði fáránlegt ef Everton myndi láta hann fara í sumar."


Líkamstjáningin hluti af vandamálinu
Hjörvar segir að líkamstjáning Gylfa þegar illa gengur, sé mögulega hluti af vandamálinu.

„Ég man að stuðningsmenn Everton elskuðu miðjumenn eins og Lee Carlsey og Thomas Gravesen sem settu kassann út og börðust. Gylfi er ekki þannig. Hann lætur kannski hausinn síga og stígur aðeins til baka eða verður pirraður og fórnar höndum. Ég veit ekki hvað það er en það er eins og hann sé fórnarlamb hjá mörgum stuðningsmönnum og það er ekki sanngjarnt."

„Hann er ekki mjög opinn einstaklingur. Faðir hans Sigurður Aðalsteinsson er þekktur á Íslandi sem besti pílukastari landsins og hann er fyndinn náungi en Gylfi er rólegri. Bróðir hans Ólafur Már Sigurðsson var einn besti golfari landsins og ég held að Gylfi sé með einn eða tvo í forgjöf. Þetta er hæfileikarík fjölskylda og það er rétt að við reynum að verja Gylfa fyrir gagnrýni á Íslandi út af því sem hann hefur gert fyrir landsliðið."


Staðráðinn í að komast á flug með Everton
Gylfi hefur byrjað alla leiki nema tvo síðan Ancelotti tók við og þeir leikir enduðu báðir með jafntefli. Næstu mánuðir gætu skorið úr um það hvert hlutverk Gylfa verður í liði Everton á næsta tímabili en heimildarmenn sem tengjast honum segja við The Athletic að hann sé staðráðinn í að komast aftur á flug með Everton.

Hinn þrítugi Gylfi er sagður hafa áhuga á að spila í MLS-deildinni í framtíðinni, sérstaklega á vesturströndinni, en hugur hans núna er að hjálpa Everton að taka næsta skref í ensku úrvalsdeildinni.

Gylfi á ennþá tvö ár eftir af samningi sínum en hann er sagður með 100 þúsund pund í laun á viku. Í grein The Athletic segir að næsta verkefni hans sé að halda áfram að sanna sig fyrir Carl Ancelotti fyrir næsta tímabil.

Smelltu hér til að lesa greinina í heild á The Athletic
Athugasemdir
banner
banner