Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 25. maí 2023 17:22
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Kjartan Henry: Spilaði í átta ár erlendis og aldrei var þetta umræðan
Kjartan Henry í leik gegn Víkingum.
Kjartan Henry í leik gegn Víkingum.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Nikolaj Hansen.
Nikolaj Hansen.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Kjartan hefur skorað fjögur mörk í sex deildarleikjum með FH á þessu tímabili.
Kjartan hefur skorað fjögur mörk í sex deildarleikjum með FH á þessu tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
FH er sem stendur í fimmta sæti Bestu deildarinnar.
FH er sem stendur í fimmta sæti Bestu deildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Kjartan Henry Finnbogason, sóknarmaður FH, er búinn að sitja af sér leikbann sem aga- og úrskurðarnefnd KSÍ dæmdi hann í þann 19. maí síðastliðinn.

Hann fór í bannið bannið þar sem hann gaf Nikolaj Hansen, leikmanni Víkings, olnbogaskot í leik Víkings og FH í Bestu deild karla þann 14. maí. Dómarar leiksins sáu ekki atvikið en framkvæmdastjóri KSÍ, Klara Bjartmarz, sendi það á borð aganefndar.

Í dómi nefndarinnar segir að Kjartan Henry hafi gerst sekur um alvarlega grófan og hættulegan leik. Atviki þar sem Kjartan sparkaði í átt að andliti Birnis Snæs Ingasonar, leikmanns Víkings, var ekki vísað til aganefndarinnar.

Kjartan var gestur í hlaðvarpsþættinum Dr Football í gær þar sem hann ræddi um málið og yfirlýsingu FH sem kom út í kjölfarið. Í yfirlýsingunni lýsti félagið yfir óánægju sinni með að Klara hafi tekið afstöðu í málinu og telur FH að umræða á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlun hafi haft áhrif á bæði ákvörðun Klöru og nefndarinnar.

„Þetta er yfirlýsing frá FH, ekki mér. Ég skil að fólk sé komið með leið á þessu. Gagnrýnin snýr ekki að því að ég hafi verið dæmdur í leikbann, hún snýr að verkferlum og það að framkvæmdastjóri KSÍ geti sent inn atvik eftir óformlegum verkferlum. Hún sendir greinargerð til aga- og úrskurðarnefndar og segir sína skoðun á málinu, hvað henni finnst. Það er verið að gagnrýna það, ekki það að ég hafi verið dæmdur í leikbann," segir Kjartan Henry.

Það er ákvæði í lögum KSÍ sem heimilar framkvæmdastjóra að skjóta málum til aga- og úrskurðarnefndar, en FH gagnrýndi Klöru fyrir að setjast í „dómarasæti" í þessu máli. Í yfirlýsingu FH er því haldið fram að fullyrðingar í greinargerð Klöru og fréttaflutningur frá málinu hafi spilað stóran þátt í ákvörðun aga- og úrskurðarnefndar.

„Hún væntanlega fylgist með fótbolta. Hún segir þau vera með óformlegt kerfi innanhúss þar sem þau fylgjast með atvikum. Ég skil ekki alveg hvað það er. Er það nóg að markaðsstjórinn eða upplýsingafulltrúinn komi til hennar í kaffi og segi við hana: 'Ertu búin að sjá þetta?' Það er ómögulegt fyrir hana að fylgjast með öllum leikjum. Það fer þá eftir því hvaða leikir eru í sjónvarpinu og hvort það sé ein myndavél eða fjórar hver umræðan er."

„Það er allt í góðu að hún vísi málum til aga- og úrskurðarnefndar - og hún hefur þessa heimild - en að hún sé að skila greinargerð og segja þeim tvisvar að henni finnist eitthvað ákveðið um málið... svo kemur úrskurðurinn og þeir taka undir sjónarmið FH um að það sé ógerningur að segja að þetta hafi verið viljandi, en dæma mig samt í eins leiks bann. Það finnst okkur kannski svolítið sérstakt og bjóða upp á allskonar hluti í sumar," segir Kjartan.

Hægt er að lesa dóminn í heild sinni hérna.

Algjört óviljaverk
Kjartan talar jafnframt um það í þættinum að það sé umræða um það á veraldarvefnum að hann sé grófur leikmaður og sé að reyna að meiða menn. Hann segir það alls ekki vera ætlun sína þegar hann stígur inn á fótboltavöllinn.

„Það eru nettröll og virkir í athugasemdum sem vilja halda því fram að ég fari inn á fótboltavöll einungis með það markmið að meiða menn, en auðvitað er það ekki þannig."

„Þetta er bara barátta inn á teignum og var algjört óviljaverk," segir Kjartan um baráttu sína við Nikolaj Hansen. Um sparkið sitt í átt að Birni Snæ - sem fór ekki fyrir aganefnd sagði hann þá: „Ég er með Ekroth í bakinu og hann brýtur á mér. Svo kemur Birnir Snær framan á. Víkingarnir eru frábærir í þessu, að brjóta, og gera það vel. Hann sparkar þann í viðkvæman ökkla og ég pirrast og sparka aftur fyrir mig. Menn halda að ég hafi verið að miða á andlitið á Birni, en það er af og frá."

„Ég ætla ekki að spila mig sem fórnarlamb hérna. Það er bara verið að gagnrýna að framkvæmdastjóri KSÍ geti sagt sína skoðun á málinu, og að framkvæmdastjóri geti sent aga- og úrskurðarnefnd sum atvik og sum ekki," segir Kjartan Henry.

Ég er ekki að reyna að meiða neinn
Kjartan var þá spurður að því í þættinum hvort hann væri á þeirri skoðun að það væri tekið öðruvísi á sér en öðrum leikmönnum. Hjörvar Hafliðason, þáttastjórnandi, hafði þá sagt að hann væri „síðasti vondi kallinn í íslenska fótboltanum."

„Það var gerð stuttmynd um mig í Pepsi-mörkunum 2012 og síðan fór ég og spilaði í átta ár erlendis, þar af sjö í Danmörku. Aldrei var þetta umræðan eða neitt slíkt," sagði Kjartan og bætti svo við: „Ég spila fast og það er líka spilað fast á móti mér. Ég fæ hné í bak, er klipinn og það er stigið á tærnar á mér. Maður er ekki að mæta í opinská viðtöl og kvarta yfir því. Mér finnst ég ekki fá mikið af aukaspyrnum. Ég elska að spila fótbolta og ég spila fótbolta á þennan hátt. Ég er ekki að reyna að meiða neinn, þó svo að virkir í athugasemdum vilja meina annað."

„Ég spila fast og það hefur einkennt mig sem leikmann. Ég var í KR alla yngri flokkana. Ég var nú yfirleitt hataður þar en því miður eru menn kannski hættir að hata KR. Ég held að það liti þetta svolítið. Þetta er bara svona. Mér finnst það leiðinlegt að þetta dragi athyglina frá því að ég er að verða 37 ára og er búinn að spila ágætlega í sumar. Við vonum að þessu máli sé núna lokið."

Hann bætti svo við: „Það var ekki verið að gagnrýna leikbannið sem slíkt, heldur ferlið og að það opni dyr á vesen. KSÍ er að standa sig frábærlega; öll sem eitt í því."

Kjartan gekk í raðir FH frá KR fyrir tímabilið og er búinn að skora fjögur mörk í sex deildarleikjum á tímabilinu. Hann getur snúið aftur í lið FH á sunnudaginn gegn HK.

Sjá einnig:
FH gagnrýnir vinnubrögð framkvæmdastjóra KSÍ - „Hún getur ekki sest í dómarasæti“
Athugasemdir
banner
banner